Borgarlína í Mosfellsbæ?
Hvað er Borgarlína?
Borgarlína er hágæða almenningssamgöngur sem keyra á sérakgreinum og eru þannig ekki háðar annarri umferð.
Borgarlínan er leið sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til að taka á móti þeim 70.000 íbúum sem áætlað er að bætist við til ársins 2040 án þess að umferð aukist í sama hlutfalli.
Þrátt fyrir eflingu almenningssamgangna með Borgarlínu er enn gert ráð fyrir því að einkabíllinn verði helsta samgöngutæki svæðisins. En með slíkri uppbyggingu aukast möguleikar heimila til að nota einkabílinn minna og kannski myndu mörg heimili frekar kjósa að eiga einn bíl í stað tveggja til fjögurra sem er staðan á mörgum heimilum í Mosfellsbæ í dag.
Af hverju Borgarlínu?
Vegna þess að það er mikilvægt að tryggja að ferðatími okkar aukist ekki til allra muna með fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Umferðarspár benda til þess að ómögulegt verði að uppfylla ferðaþarfir fólks til framtíðar eingöngu með uppbyggingu hefðbundinna umferðarmannvirkja.
Það sýna rannsóknir og reynslan bæði hérlendis og erlendis. Kostnaðar- og ábatagreining sýnir fram á það með óyggjandi hætti að það er þjóðhagslega hagkvæmt að setja fjármuni í Borgarlínu. Það dregur úr fjárfestingarþörf hins opinbera í öðrum dýrum samgöngumannvirkjum, það er umhverfisvænt, það minnkar samgöngukostnað heimilanna og bætir lýðheilsu almennings.
Fær Mosfellsbær Borgarlínu?
Svarið við því er JÁ, í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að allir miðbæjarkjarnar á svæðinu tengist Borgarlínunni. Nú er í forkynningarferli skipulag sem tekur frá rými fyrir Borgarlínu, en samkvæmt þeirri tillögu mun Borgarlína keyra í gegnum væntanlega byggð í Blikastaðalandi, fara Baugshlíðina fram hjá Lágafellsskóla, Bogatanga og svo Þverholtið inn að miðbænum okkar.
Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið okkar að vera tengt þessari miklu samgöngubót sem Borgarlínan verður. Það er þó ástæða til þess að taka það fram að Borgarlínan mun aldrei þjónusta öll hverfi sveitarfélagsins vegna þess að þéttleiki í kringum slíkar stöðvar þarf að vera meiri en gengur og gerist í Mosfellsbæ, þar sem þéttleiki byggðar er almennt lítill. Þannig er gert ráð fyrir að þéttleiki á Blikastaðalandi verði meiri en við þekkjum í núverandi hverfum, svo og er gert ráð fyrir meiri þéttleika í miðbænum okkar.
Hvenær og hvernig verður þjónustunni háttað þangað til?
Borgarlínan mun ekki leysa af hólmi hinn almenna Strætó sem mun þjóna öðrum hverfum og tengja þau þannig við Borgarlínu. Ekki er hægt að fullyrða um það hvenær Borgarlínan rís í Mosfellsbæ en það mun verða í tengslum við uppbyggingu Blikastaðlands, líklega á næstu 10-20 árum. Þangað til mun hinn hefðbundni Strætó þjóna íbúum.
Bæjaryfirvöld leggja áherslu á að bæta þjónustu Strætó eins og kostur er. Þannig er brýnt að Strætó keyri í Helgafellshverfi enda byggist það hratt upp með fjölda íbúða. Eins er uppbygging í Leirvogstungu mikil og þar er í skoðun hvernig hægt er að bæta núverandi þjónustu með umhverfislegum og hagkvæmum hætti. Einnig er mikilvægt að kanna hvort ekki sé hægt að auka tíðni ferða, sérstaklega yfir sumartímann.
Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður og bæjarfulltrúi