Bjóða upp á íþróttatíma eftir vinnu

xxx

Starfsmenn Mosfellsbæjar eru hvattir til reglulegrar hreyfingar. Myndin er tekin í vatnsleikfimi í Lágafellslaug.

Mosfellsbær hefur keyrt þróunarverkefnið „Heilsueflandi samfélag“ í samvinnu við Heilsuvin og Embætti landlæknis í þónokkur ár og eins og áður miðar verkefnið að því að setja heilsueflingu í forgrunn í allri þjónustu sveitarfélagsins.
Í mannauðsstefnu Mosfellsbæjar er lagður metnaður í að skapa heilsueflandi vinnustaðamenningu fyrir starfsmenn og gera starfsmönnum aðgengilegra að huga að hreyfingu og auknu heilbrigði.
Til að framfylgja mannauðsstefnu bæjarins og með það að markmiði að ýta undir heilsueflingu starfsmanna hefur Mosfellsbær síðustu rúmu tvö árin boðið starfsmönnum sínum að sækja fjölbreytta íþróttatíma, þeim að kostnaðarlausu, í íþróttamiðstöð Lágafells.

Í anda heilsueflandi samfélags
„Tímarnir eru í boði eftir hefðbundinn vinnutíma starfsmanna og þarf að skrá sig áður en mætt er,“ segir Hanna Guðlaugsdóttir mannauðsstjóri hjá Mosfellsbæ.
„Er þetta liður í að hvetja alla starfsmenn til að hreyfa sig reglubundið, bæta heilsufar sitt, vellíðan og hreysti í anda heilsueflandi samfélags Mosfellsbæjar. Þeir starfsmenn sem kjósa geta skráð sig í tímana og mætt, óháð því hvort viðkomandi er með líkamsræktarkort eða ekki.“

Í átt að betri líðan
Fyrirkomulagið hófst veturinn 2017-2018 og var upphaflega hugsað sem tilraunverkefni en hefur frá upphafi verið tekið einstaklega vel.
„Með þessu teljum við Mosfellsbæ styðja við bakið á starfsmönnum og veita þeim fleiri tækifæri til að stunda reglubundna hreyfingu ásamt því að taka skrefin í átt að betri heilsu og líðan,“ segir Hanna.

Fjölbreyttir tímar
Í haust geta starfsmenn sótt tíma í jóga, vatnsleikfimi eða Tabata. Tímarnir verða í boði til 1. desember en það fer eftir ásókn og ástundun starfsmanna hversu langt inn í veturinn þeir halda áfram.
„Við hvetjum starfsmenn okkar að nýta sér þessa heilsueflandi viðbót við samgöngustyrk og ókeypis sundkort.“