Vinkonukvöld skilaði 1,5 milljónum til Bergsins
Vinkonukvöld Soroptimista Mosfellssveitar safnaði 1,5 milljónum króna fyrir Bergið Headspace
Þann 16. október hélt Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar árlegt vinkonukvöld í Hlégarði. Kvöldið var vel sótt eða um 120 konur komu saman til að njóta samveru og skemmtunar ásamt því að safna fjármunum til stuðnings Berginu Headspace. Stemningin var einstök frá upphafi og minnti okkur á þann kraft sem skapast þegar fólk sameinast um gott málefni.
Dagskráin var fjölbreytt og lifandi og samanstóð af góðum mat, happdrætti og skemmtiatriðum. „Við færum sérstakar þakkir öllum þeim sem komu fram – hljómsveitunum Gleym mér ei og Imperial ásamt Ólafíu Hrönn fyrir að gefa af sér og skapa ógleymanlega stemningu. Jafnframt færum við fyrirtækjunum VGH, Byggingafélaginu Bakka, Íþöku, Eignaþrif og KORA bestu þakkir fyrir þeirra velvilja og stuðning.
Við viljum einnig þakka öllum þeim sem lögðu kvöldinu lið, hvort sem það var með afslætti, vinnuframlagi, þjónustu eða vinningum. Samfélagið okkar sýndi enn á ný hversu miklu það getur áorkað þegar það stendur saman.“
Útkoma kvöldsins fór fram úr væntingum og alls söfnuðust 1.500.000 krónur, sem runnu óskiptar til Bergsins Headspace. Framlagið jafngildir annars vegar 88 einstökum viðtölum fyrir ungmenni eða hins vegar 20–30 ungmennum sem fá 3–5 samtöl hvert. Með styrknum er stuðlað að styttri biðlistum og tryggt að ungmenni fái aðstoð á réttum tíma. Bergið er með útibú í Mosfellsbæ.
Styrkurinn var afhentur Berginu formlega í síðustu viku. Verkefnið sýnir vel þann samfélagslega kraft sem getur myndast þegar einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök taka höndum saman um mikilvægt málefni.
Vinkonukvöld Soroptimista er skýr staðfesting á því að þegar gleði, samhugur gleði og góðvild mætast, þá gerast stórkostlegir hlutir. „Við erum afar þakklátar öllum þeim sem tóku þátt og lögðu sitt af mörkum til að gera kvöldið að veruleika,“ segir Berta Þórhalladóttir verkefnastjóri Soroptimistaklúbbs Mosfellssveitar




