Vínbóndinn býður upp á lífrænt frá Ítalíu

Mosfellingurinn Arnar Bjarnason hefur síðastliðin sjö ár rekið vefverslunina Vínbóndinn.is sem er lífræn vefverslun bæði með mat og vín, allt gæðavörur frá Ítalíu.
Arnar hefur yfir 20 ára reynslu í að flytja inn vín og mat og stofnaði og rak meðal annars verslunina Frú Laugu um tíma.
„Ég er eingöngu að flytja inn lífrænar matvörur og svokölluð náttúruvín og eiginlega allt frá Ítalíu,“ segir Arnar sem er tónlistarmenntaður og hefur starfað sem tónlistarkennari meðfram rekstrinum.

Eingöngu með lífrænar vörur
Vínbóndinn býður upp á fjölbreytt úrval af lífrænum matvörum svo sem ólífuolíur, tómatafurðir, pasta, ávaxtasafa, blandaða matarkassa og margt fleira, beint frá bónda á Ítalíu.
„Ég hef sérvalið þá bændur sem ég versla við, er búinn að heimsækja þá og á í mjög góðum samskiptum við þá. Margar af vörunum sem við bjóðum upp á eru með allar bestu vottanir sem hægt er að fá í lífrænni ræktun. Það má segja að viðskiptavinir okkar sem byrja að versla við okkur panta aftur og aftur. Við erum með fría heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu ef pöntun fer yfir 12.000 kr.“

Náttúruvín eru alltaf að verða vinsælli
Vínbóndinn flytur inn fjölda vína sem hægt er að kaupa í völdum verslunum Vínbúðarinnar og enn fleiri vín er hægt að sérpanta og fá send í hvaða vínbúð sem er.
„Náttúruvín eru lífræn en það má segja að það sé gengið skrefinu lengra. Náttúruvín eru hrein afurð hreins landbúnaðar, óspilltur vínsafi án aukaefna, best fyrir mann og náttúru. Við erum með rauðvín, hvítvín, rósavín og freyðandi vín, svo erum við líka með svokölluð gulvín sem eru að verða mjög vinsæl. Þetta er eiginlega hvítvín þar sem berin eru notuð með hýðinu og gefur þeim svokallað tannin og líkjast í raun meira rauðvíni á bragðið,“ segir Arnar en það kostar ekkert aukalega að gera sérpantanir og lágmarksmagn er ekki nauðsynlegt.

Vinsælar vörur í fjáraflanir
Margir eru að standa í fjáröflunum þessa dagana og býður Vínbóndinn upp á sérhannaða pakka með ítölskum gæðamatvörum. „Það er alltaf að verða vinsælla að bjóða matarpakka frá okkur í fjáraflanir, það er nýjung á þessum fjáraflanamarkaði og margir fegnir að fá gæðamatvöru á góðu verði.
Við erum með nokkra staðlaða pakka með t.d. ólífuolíu, pasta, pastasósum, pestói og ólífum, svo er alltaf hægt að útbúa eftir óskum hvers og eins. Við bjóðum líka upp á kaffi, súkkulaði, hunang og sultur, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Arnar að lokum, en allar upplýsingar eru á vinbondinn.is og hvetur hann Mosfellinga til að fylgja Vínbóndanum á samfélagsmiðlum.