Viðtökurnar langt umfram væntingar

Heilsuhjónin Halla Karen Kristjánsdóttir og Elías Níelsson.

Ný 940 m2 viðbygging við World Class í Mosfellsbæ var tekin í notkun laugardaginn 11. janúar. Líkamsræktarstöðin var fyrst opnuð í Lágafellslaug í lok árs 2007 en nú hefur hún tvöfaldast að stærð.
Boðið er nú upp á stærri tækjasal, infra­red heitan sal, hjólasal með ic7 hjólum, fjölnota sal, tvo nýja búningsklefa, infrared gufu, þurrgufu og auðvitað aðgang að Lágafellslaug.
Hjónin Halla Karen Kristjánsdóttir og Elías Níelsson hafa hvatt Mosfellinga til hreyfingar í fjölda ára og starfa bæði hjá World Class.

Þrír æfingasalir í stað eins
„Þetta fer mjög vel af stað og Mosfellingar hafa tekið stækkuninni gríðarlega vel. Það er troðfullt í alla tíma og viðtökurnar langt umfram væntingar. Þrír nýir salir hafa verið teknir í notkun sem gerir það að verkum að hægt er að bjóða upp á þrjá ólíka líkamstæktartíma í stað eins áður. Einn salurinn er fjölnota, annar infrared heitur og sá þriðji sér hjólasalur. Þá mun tækjasalurinn á neðri hæðinni einnig stækka og eru ný tæki á leiðinni.
Auk þess er komin ný búningsaðstaða og ný gufuaðstaða.“

Í takt við stækkandi heilsusamfélag
Halla Karen bætir við að sundlaugin og sú frábæra aðstaða sé mjög stór partur af þessu líka og hafi mikið aðdráttarafl. „Sigurður Guðmundsson hjá Mosfellsbæ á heiður skilið fyrir að koma þessu á laggirnar með World Class. Þetta er algjörlega í anda heilsueflandi samfélags og í takt við stækkandi bæjarfélag. Mosfellingar eru almennt mjög duglegir að hreyfa sig og þessi bætta aðstaða á bara eftir að hjálpa ennþá frekar til.
Við erum með fullt af nýjum kennurum í World Class og ótrúlega mikið af tímum. Aðstaðan hér fyrir var orðin barn síns tíma og nú sér maður það vel, alveg svart og hvítt.
Hingað kemur líka fólk úr nágrenni Mosfellsbæjar og svo er gaman að geta þess að eldri borgararnir eru farnir að mæta nánast daglega.“
Það er greinilegt að engu hefur verið til sparað við stækkun stöðvarinnar í Mosfellsbæ og viðtökur Mosfellinga frábærar.
„Auðvitað eru alltaf smá hnökrar í byrjun en við kippum því í lag,“ segir Halla Karen sem hlakkar til að sjá bæjarbúa vera duglega að hreyfa sig um ókomna tíð.