Við erum komin til að vera – Viltu vera með?

Hanna Símonardóttir

Á 50 ára afmæli knattspyrnudeildar Aftureldingar tókst loks að ná langþráðu markmiði.
Karlalið deildarinnar tryggði sér sæti í BESTU deildinni í hreinum úrslitaleik um sætið fyrir framan tæplega 3.000 áhorfendur á Laugardalsvelli.

Þessi árangur er enginn tilviljun. Um árabil hefur uppbygging verið stigvaxandi, bæði innan liðsins og ekki síður í umgjörðinni. Sjálfboðaliðar hafa unnið þrekvirki í að efla allt sem snýr að umgjörð fyrir liðið og framkvæmd leikja, án þess að ég taki nokkuð af frábærum árangri þjálfarateymisins eða liðinu sjálfu.
Ekki má heldur gleyma hlut styrktaraðilanna í þessum árangri. Með stækkandi hóp öflugra styrktaraðila hefur verið hægt að auka fagmennskuna og bæta í á ýmsum stöðum.

Nú byrjar hins vegar næsti kafli, að halda liðinu uppi, því við erum komin til að vera!!

Um aðstöðuna þarf ekki að fjölyrða, en þar treystum við algjörlega á að Mosfellsbær sé í liði með okkur til að það gangi upp að fá undanþágur frá leyfiskerfinu á meðan varanleg aðstaða rís vonandi sem allra fyrst.
Þjálfarar og leikmenn munu leggja enn harðar að sér en áður, það vitum við. En það þurfum við sjálfboðaliðar líka að gera. Það vantar ekkert upp á að þetta er súper gaman, það vitnar fjöldinn um, sjálfboðaliðahópurinn telur tugi manna og kvenna.
En lengi getur gott batnað, það er pláss fyrir mikið fleiri og þörf á ef við ætlum að bæta í. Þeir sem sitja heima og hugsa um að það gæti verið gaman að ganga til liðs við sjálfboðaliða íþróttastarfsins eru hvattir til að láta verða af því, við tökum öllum fagnandi. Ekki síður ef einhverjir hafa áhuga á að styrkja starfið, þar er heldur betur hægt að taka við og fara vel með.

Endilega setjið ykkur í samband við okkur ef þið hafið áhuga á að vera með okkur í þessari skemmtilegu vegferð, í gegnum netfangið: aftureldingmflkk@gmail.com

Hanna Sím.
sjálfboðaliði