Við erum að byggja bæ til framtíðar, en fyrir hvern?

Eyþór Bjarki Benediktsson

Mosfellsbær stendur frammi fyrir miklum breytingum. Á næstu árum er gert ráð fyrir að byggja eigi um þrjú þúsund nýjar íbúðir og bæjarfélagið mun stækka hratt.
Það er gott að bærinn vaxi en mér finnst mikilvægt að við ræðum hvernig þessi fjölgun verður og hverjir flytja hingað. Staðreynd er sú að stór hluti fjölgunar á landsvísu undanfarin ár kemur til vegna fólks sem er af erlendu bergi brotið. Dvalarleyfi til ríkisborgara utan EES hafa margfaldast á skömmum tíma. Þetta er staða sem við getum ekki horft framhjá.

Samkvæmt nýrri skýrslu starfshóps um dvalarleyfi (nóvember 2025) skýra erlendir ríkisborgarar um það bil 70% af fólksfjölgun á Íslandi frá 2017 til 2025. Á sama tíma hefur fjöldi dvalarleyfishafa frá ríkjum utan EES nær fimmfaldast úr um 4.200 einstaklingum í tæplega 20.000 og tvöfaldaðist á síðustu þremur árum.
Þetta sýnir að stór hluti framtíðarfjölgunar íbúa, líka í Mosfellsbæ, mun ráðast af ákvörðunum í útlendinga- og dvalarleyfismálum.
Spurningin er einföld: Hvernig viljum við að Mosfellsbær verði þegar þessi íbúðauppbygging er orðin að veruleika? Hver er framtíðarbærinn sem við sjáum fyrir okkur? Viljum við að fjölgunin verði að mestu vegna ungs fólks sem er að koma sér fyrir, vilja fjölskyldur setjast hér að eða munum við sjá stærstan hluta nýrra íbúa koma erlendis frá? Erum við að byggja upp sjálfbært samfélag?

Við þurfum að eiga heiðarlegt samtal um hvernig við viljum að samfélagið okkar þróist. Mosfellsbær á að vera góður staður fyrir alla sem hér búa. Það er eðlilegt að spyrja hvernig íbúasamsetning og fjölgun hafi áhrif á skóla, þjónustu, húsnæði og samfélagið til framtíðar.
Ég vil að íbúar Mosfellsbæjar setji sér skýr markmið um uppbyggingu næstu ára þar sem tekið er mið af íbúasamsetningu, þjónustu, skólastarfi og samfélagsanda. Við eigum að gera áætlun og gott skipulag en ekki bara vona að allt reddist.

Eyþór Bjarki Benediktsson, Miðflokksmaður í Mosfellsbæ