Verkfall á Höfðabergi

„Vonandi ná aðilar saman svo verkfalli ljúki sem fyrst,“ segir Tinna Rún Eiríksdóttir leikskólastjóri á Höfðabergi.
Verkfall er hafið í 14 leikskólum og 7 grunnskólum víða um land. Kennarar, ríki og sveitarfélög sátu á fundum hjá ríkissáttasemjara alla helgina en hafa ekki náð saman til þessa.
Leikskólakennarar á Höfðabergi, einum fjölmennasta leikskólanum í Mosfellsbæ, eru farnir í verkfall og það hefur áhrif á flestar deildir skólans en leikskólinn er níu deilda skóli og í sex deildum eru fagmenntaðir leikskólakennarar sem deildarstjórar.
Á Höfða­bergi eru börn á aldr­in­um 3-5 ára. Óbreytt starf­semi er á einni deild, tvær deild­ir eru opn­ar að hluta en sex deildir lokaðar.

Mikilvægur hópur í okkar barnmarga samfélagi
„Kennarar eru fjölmennur og mjög mikilvægur hópur í okkar barnmarga sveitarfélagi og það er til mikils að vinna að ná að bæta starfsumhverfi í grunn- og leikskólum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboðið fyrir hönd stjórnar sambandsins og það er mikilvægt að deilan verði leyst við það samningaborð og einstaka bæjarstjórar og sveitarstjórnir hafa almennt ekki tjáð sig opinberlega um deiluna.“

Áskorun til bæjaryfirvalda frá foreldraráðum
Bæjaryfirvöld hafa fengið áskorun frá foreldraráðum í leik- og grunnskólum bæjarins, um að beita sér fyrir því að samningar náist.
„Við skorum á að þau loforð sem gefin voru kennurum árið 2016 verði uppfyllt svo allir megi ganga sáttir frá borði. Við förum fram á að Mosfellsbær skorist ekki undan sinni ábyrgð og nýti atkvæðarétt sinn innan Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að berjast fyrir að komið verði til móts við kröfur kennara,“ segir í tilkynningunni.