Veislubókin er þarfaþing veisluhaldarans

veislubókin

Mosfellingurinn Berglind Hreiðarsdóttir sem heldur úti vinsælu vefsíðunni Gotterí.is er að gefa út veglega veisluhandbók nú fyrir jólin. Berglind hefur tekið saman allt það helsta sem þarf að vita þegar haldnar eru veislur.
„Þessi bók er ómissandi handbók fyrir alla þá sem eru að fara að halda veislur. Ég skipti bókinni niður í sex mismundandi kafla, brúðkaup, útskrift, ferming, skírn/nafngjafarathöfn, barnaafmæli og fullorðinsafmæli,“ segir Berglind sem hefur lagt mikinn metnað í þessa fallegu bók.

Gagnlegir gátlistar
Berglind hefur í gegnum tíðina fengið óteljandi spurningar varðandi skipulag og framkvæmd á veislum og fannst tilvalið að setja það saman í eina bók.
„Þetta er miklu meira en bara uppskriftir, þetta er handbók sem leiðir þig í gegnum veisluhaldið frá A-Ö. Bókin er byggð þannig upp að það eru gátlistar fyrir hvern kafla um allt það sem þarf að huga að þegar halda skal veislu. Ég kem með hugmyndir að framsetningu, leiðbeiningar um útreikning á magni veitinga ásamt ýmsum góðum ráðum.
Gátlistarnir eru ýtarlegri, til dæmis er í brúðkaupskaflanum allt frá dagsetningu og veislustjóra að kostnaðaráætlun og margt fleira.“

Fallegar myndir
Bókin er fallega myndskreytt en Berglind tók allar myndirnar sjálf en hún fékk góða hjálp frá vini sínum varðandi myndvinnsluna.
„Þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt ferli. Ég skrifaði bókina í sumar og hélt í raun allar þessar veislur sem ég set fram í bókinni hér á pallinum í Laxatungunni. Nágrannarnir fengu að njóta góðs af því og voru duglegir að koma og smakka og gefa góð ráð,“ segir Berglind hlæjandi og vonar að bókin eigi eftir að nýtast Mosfellingum og öðrum landsmönnum vel í veisluhöldum um ókomna tíð.