Vegferð til vellíðunar
Nú þegar hátíð ljóss og friðar er að ganga í garð er ekki úr vegi að staldra aðeins við, líta yfir árið og velta því fyrir sér hvernig það var og af hverju.
Leið mér vel? Lagði ég rækt við sjálfa/-n mig og aðra? Var ég meðvituð/-aður um gerðir mínar og viðbrögð í hinu daglega amstri? Þetta eru aðeins örfáar af þeim spurningum sem koma upp í hugann því það er nefnilega svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf og aðra í kringum okkur.
Jákvæðni er val
Eins og segir í fyrsta geðorðinu þá er einfaldlega léttara að hugsa jákvætt og slíkt er í raun val hvers og eins. Það er sama hversu krefjandi verkefnin okkar eru, það er alltaf hægt að finna jákvæðar hliðar á þeim og þó okkur takist jafnvel ekki að leysa þau eins og við vildum þá erum við að minnsta kosti alltaf reynslunni ríkari. Mundu að reynslan og viðhorf okkar til hlutanna skapa okkur sem manneskjur og þau gildi sem við stöndum fyrir. Áskoranir lífsins eiga nefnilega ekki að hafa lamandi áhrif á okkur, þær eiga að hjálpa okkur að uppgötva hver við erum í raun.
Þakklæti bætir heilsuna
Þakklæti er göfug og góð tilfinning. Sálfræðingurinn Robert A. Emmons hefur meðal annarra rannsakað áhrif þakklætis á samskipti, hamingju og heilsu fólks. Niðurstöður hans sýna m.a. að það einfalda atriði að þakka markvisst og meðvitað einu sinni í viku leiðir til betri heilsu, meiri gleði og hamingju, betri svefns og samskipta, meiri ákafa og bjartsýni, meiri styrks og ákveðni, meiri ástundunar líkamsræktar, meiri lífsánægju og er þá einungis talinn upp hluti þeirra góðu áhrifa sem þakklæti hefur á líf okkar og heilsu.
Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Rannsóknir hafa einnig sýnt að þeim sem gengur vel í lífinu og líður vel eiga það sameiginlegt að hlúa að því sem þeim þykir vænt um. Með því að koma vel fram við og gleðja aðra þá stuðlum við að vellíðan þeirra auk okkar eigin. Settu þér það markmið að gleðja og/eða tjá einhverjum væntumþykju þína reglulega og hlúðu þannig að þeim sem þér þykir vænt um og skipta þig máli í lífinu.
Vellíðan
Það er löngu vísindalega sannað að holl, góð og fjölbreytt næring hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu. Ef okkur líður vel andlega og líkamlega þá eru yfirgnæfandi líkur á því að félagslegi þátturinn fylgi með sem einkennist af góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra. Temjum okkur að þakka fyrir góðu hlutina í lífi okkar, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, og virkjum fólkið í kringum okkur með í þessari vegferð til þakklætis, hamingju og heilbrigðis.
Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ færir ykkur hjartans þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, óskar ykkur gleði og friðar um hátíðirnar og að sjálfsögðu heilbrigðis og hamingju á nýju ári.
Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ