Vatnsvernd kemur okkur öllum við

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Vandfundinn er sá staður þar sem er gnægð af góðu ferskvatni og meira en það eins og hér á landi.
Okkur Íslendingum þykir sjálfsagt að vatn – bæði kalt og heitt – er nær alls staðar að finna og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að þar verði skortur á. Fréttir af því að nýlega hafi verið mengun í drykkjarvatni á Vestfjörðum hafa ekki snert landsmenn sérlega mikið en gefa samt smá aðvörunarmerki.

Í gegnum Mosfellsbæjarlandið renna nokkrar ár: Varmá, Kaldakvísl, Suðurá, Úlfarsá og Leirvogsá (sem er á landamærunum við Reykjavík). Varmá sem er á náttúruminjaskrá og Kaldakvísl renna í gegnum þéttbýli og eru því í mestri hættu að verða fyrir mengun. Reyndar hafa orðið nokkur mengunarslys í báðum þessum ám.
Hvað er það sem getur valdið mengun í ám, vötnum og sjó?
-Rangar tengingar frá húsum og bílskúrum þar sem skólp fer óhreinsað í árnar og sjóinn.
-Óhreinsað skólp frá ófullnægjandi rotþróm og siturlögnum.
-Málning, olía og annað sem hellt er í niðurföll utandyra eða í bílskúrum.
-Tjöruhreinsir og sápa frá bílaþvotti.
-Klór úr heitum pottum.

Búið er að hanna góðan bækling um vatnsvernd sem allir bæjarbúar ættu að fá heim. Því miður hefur ekki orðið af því vegna peningaleysis því ekki er veitt nægilegu fjármagni til umhverfismála. En vatnsvernd ætti að vera eitt af forgangsmálunum hér eins og annars staðar, ekki spurning.
Mosfellsbærinn er yndislegur bær þar sem gott er að búa. Hér á að vera heilsueflandi samfélag. Þannig að umhverfið okkar á að vera heilnæmt en ekki mengað. Vatnakerfin eru viðkvæm og ef þau verða fyrir raski og mengun eru þau lengi að ná sér – ef þau nái sér. Fyrirbyggjandi aðgerðir eru margfalt ódýrari en mótvægisaðgerðir seinna meir þegar skaðinn er skeður.

Ég skora á bæjaryfirvöld að leggja til fjármagn til fræðslu um vatnsvernd og til að vakta vatnakerfin í bænum reglulega. Umhverfismálin eiga ekki að lenda alltaf í aftasta sæti.

Úrsúla Junemann
Höfundur starfar í umhverfisnefnd fyrir M- listann