Útskrifuð frá framhaldsskólanum
Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram 19. desember við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Bjarkarholt 35.
Alls voru 13 nemendur brautskráðir. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir tveir nemendur og einn af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut – almennu kjörsviði voru brautskráðir fimm nemendur og af íþrótta- og lýðheilsukjörsviði einn nemandi. Fjórir nemendur voru brautskráðir af umhverfis- og líffræðibraut.
Við athöfnina voru flutt tónlistaratriði frá nemendum tónlistarskólans í Mosfellsbæ en hefð er fyrir því að nemendur tónlistarskólans flytji tónlist við góðar undirtektir á útskriftarhátíðum skólans enda um áralangt farsælt samtarf að ræða á milli skólanna. Fulltrúi kennara hélt ræðu fyrir hönd starfsmanna og einnig hélt nýstúdent ræðu fyrir hönd útskriftarnema.
Í ræðu nýráðins skólameistara Kristjáns Arnar Ingasonar sem hóf störf í desember sl. kom m.a. fram ósk um bjarta framtíð til handa útskriftarnemum og nauðsyn þess að gefa sér góðan tíma til að íhuga næstu skref í lífinu. Að lokum var útskriftarnemendum óskað til hamingju með áfangann og óskað velfarnaðar í framtíðinni.



