Úr sjoppunni í formannssæti VR

Halla Gunnarsdóttir

Nú þegar ég hef heimsótt fjölda vinnustaða í tengslum við kosningar til formanns VR hugsa ég oft til baka til sjoppuáranna í Snæland Vídeó í Mosó og um það hversu mikið afgreiðslustörf hafa breyst.
Í sjoppunni höfðum við ákveðið sjálfsforræði, við máttum lauma aðeins meira blandi í pokann, semja um skuldir fyrir spólur og gefa ísinn sem var óvart of linur. Þetta sjálfsforræði, ásamt óborganlegum vinnufélögum og frábærum viðskiptavinum, gerði vinnuna skemmtilega. Okkur fannst við eiga sjoppuna saman og vorum stolt af vinnunni okkar.
Þetta er mér mjög hugfast í dag þegar ég sæki heim vinnustaði ólíkra VR-félaga. Starfsánægja virðist nánast alltaf haldast í hendur við traust og forræði yfir sinni eigin vinnu, að ógleymdum sveigjanleikanum (sem við höfðum reyndar aldrei í sjoppunni, þar voru matar- og kaffitímar ekki einu sinni virtir).

Láttu konuna fá peninginn
Þau eru ýmis áföllin sem dynja yfir fólk á unglingsárunum. Ef litið er fram hjá því sem raunverulega teljast áföll í lífinu, þá er mér mjög minnisstætt það mikla sjokk sem ég fékk þegar ég var að afgreiða barn um bland í poka í Snæland Vídeó og móðir barnsins sagði hátt og snjallt: „Nú máttu láta konuna fá peninginn.“ Ég var fjórtán ára og alls engin kona! En ég tók við peningunum og sneri mér að næsta viðskiptavini sem vildi líka bland í poka fyrir afganginn.
Snæland Vídeó var miklu meira en bara sjoppa á þessum tíma. Snæland var sjoppan, með ákveðnum greini, og þangað lagði fólk leið sína til að leigja spólu, ná sér í bland fyrir skrall helgarinnar eða fá sér eina pulsu (tómatsósuna undir steikta laukinn takk). En fólk kom líka í sjoppuna sér til dægrastyttingar. Hópar ungs fólks komu þar saman og unglingar gerðu ítrekaðar tilraunir til að hanga inni í sjoppunni en þurftu að sætta sig við að safnast saman fyrir utan í staðinn.
Um helgar skapaðist oft mikil stemming á bílaplaninu og í eina skiptið sem ég hef komist í kast við lögin (fyrir utan eina hraðasekt, afsakið) var þegar ég ílengdist á sjoppuplaninu eftir vinnu og löggan kom og keyrði mig heim, enda útivistartími barna löngu liðinn.
Í sjoppunni í Mosó steig ég mín fyrstu skref á vinnumarkaði. Starfið var fjölbreyttara en það kann að hljóma, við seldum ís og pulsur, snakk og bland í poka, og leigðum vídjóspólur og síðar DVD-diska. Síðan þurfti að fylla á, pússa glerið og halda öllu hreinu. Það var nánast alltaf brjálað að gera og sjoppan iðaði af lífi. Stundum var ég svo þreytt eftir vaktir að ég settist upp um miðjar nætur og spurði út í tómið „get ég aðstoðað?“.
Ég vann í sjoppunni með skóla og á sumrin í mörg ár. Og núna, aldarfjórðungi síðar, er ég enn að hitta fólk sem segist kannast við mig og spyr hvort ég hafi ekki unnið í sjoppunni í Mosó.

VR-ingar, nýtið atkvæðisréttinn
Þessari grein var ætlað að vera smá kosningaáróður, þar sem ég gef nú kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður VR. Þess í stað rann greinin niður slóð minninganna! En mig langar samt að hvetja alla VR-félaga í Mosfellsbæ til að nýta atkvæðisrétt sinn í félaginu og kjósa bæði formann og stjórn. Og ekki þætti mér verra ef „konan“ í sjoppunni fengi ykkar atkvæði!

Kosning stendur yfir frá 6. mars kl. 10 og fram á hádegi 13. mars. Allar nánari upplýsingar um mig eru inni á halla.is og upplýsingar um kosninguna eru á vr.is. Svo fáum við okkur bland í poka fyrir afganginn.

Halla Gunnarsdóttir
Formaður VR og fyrrum sjoppukona í Mosó