Uppfærsla samgöngusáttmála – nei takk

Dagný Kristinsdóttir

Mál málanna hjá bæjarstjórn í september var uppfærður samgöngusáttmáli en markmiðið með honum er að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og bjóða upp á fjölbreyttari valkosti til ferða á milli svæða.
Það er margt gott í sáttmálanum en það eru líka margir þættir sem eru óljósir og þarfnast umræðu.

Hvað er í þessu fyrir okkur?
Einhverjir vilja að við horfum til þess hvað sáttmálinn færir höfuðborgarsvæðinu í heild sinni en við getum ekki annað en skoðað hvað þessi uppfærsla færir okkur, íbúum í Mosfellsbæ. Stutta svarið er í raun einfalt. Á komandi ári er lagt til að ferðir á leið 15 verði tíðari.
En sú breyting ein og sér gerir ekki mikið. Aðrar samgöngubætur fyrir okkur eru annars vegar Borgarlína sem á, samkvæmt uppfærslunni, að fara í keyrslu upp úr 2032. Það er eftir átta ár.
Og hins vegar Sundabraut sem á að vera tekin í gagnið á svipuðum tíma. En líkurnar á að það gerist myndi ég telja harla litlar. Á sama tíma mun ferðatími okkar lengjast ár frá ári samhliða gríðarlegri uppbyggingu í bæjarfélaginu, t.d. á Blikastöðum og á Korputúni.

Af hverju segi ég nei?
Eftir að hafa kynnt mér málin og rætt við fólk sem hefur meiri þekkingu á þessu sviði ákvað ég að segja nei við uppfærslunni. Ástæðan er ekki það fjármagn sem við leggjum til verkefnisins, heldur aðrir þættir málsins.
Það er margt í sáttmálanum sem er óljóst, sem dæmi má nefna gríðarlegar fjárhæðir sem geta tengst hinum ýmsu verkefnum og framkvæmdum, en ekki hefur verið ákveðið hvar kostnaðarhliðin leggst.
Við, oddvitarnir í minnihlutanum, bentum á þetta við umræðu málsins og ekki að ástæðulausu. Í dag er staðan sú að ríkisstjórnin er fallin og verkefnin í sáttmálanum eru ófrágengin af ríkisins hálfu.

Önnur ástæða fyrir því að ég var ekki tilbúin að segja já við þessari uppfærslu er sú að á sama tíma og uppbygging samgönguinnviða fer fram, verðum við í framkvæmdum á Blikastöðum sem eiga eftir að kosta bæinn gríðarlega fjármuni.
Ég hefði viljað spyrja að því, fyrir undirritun, hvað ætlum við að gera ef samgönguframkvæmdir sigla í strand eða kostnaður eykst, á sama tíma og fjárfrekar framkvæmdir eru í gangi hjá okkur. Það er okkar ábyrgð að hugsa út í það.
Svo er það annað veigamikið atriði. Kjörnir fulltrúar eru fulltrúar íbúa. Ég er ekki tilbúin að koma fram sem kjörinn fulltrúi og segja við mína kjósendur að ég hafi samþykkt sáttmála sem gefi okkur einhverjar umferðarbætur eftir átta ár, hið fyrsta. Hagsmunir bæjarfélagsins eru gríðarlegir, góðar samgöngur til og frá bænum eru ein forsenda þess að fólk vilji flytja í bæinn og það er okkar hlutverk að standa vörð um þann málstað.
Hver og einn bæjarfulltrúi kaus eftir sinni sannfæringu. Mín sannfæring var þessi. Ég er ekki tilbúin að samþykkja svo stórt verkefni án þess að hafa allar staðreyndir á pappír fyrir framan mig. Þarna vantaði samráð og samtal, kjörnir fulltrúar fengu vitneskju um sáttmálann tveimur dögum fyrir undirritun. Svoleiðis vinnubrögð finnast mér ekki góð.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar