Uppbygging öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ
Eir hjúkrunarheimili er sjálfseignarstofnun með staðfesta skipulagsskrá, sem var stofnað til árið 1993 á grundvelli samfélagslegra hugsjóna, án allra hagnaðarsjónarmiða.
Tilgangurinn með stofnun Eirar var að veita framúrskarandi öldrunarþjónustu til hrumra og veikra sem eru í þörf fyrir slíka þjónustu.
Mosfellsbær varð aðili að Eir í nóvember árið 2002 og stendur að sjálfseignarstofnuninni ásamt Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, ýmsum stéttarfélögum og félögum eldri borgara, sem og nokkrum félagasamtökum. Þannig tilnefnir Mosfellsbær þrjá einstaklinga til setu sem fulltrúar í fulltrúaráði Eirar og Félag eldri borgara í Mosfellsbæ tilnefnir einn fulltrúa í fulltrúaráðið. Fulltrúaráðið, sem er skipað alls 37 einstaklingum, skipar svo í stjórn Eirar og hefur ákveðið eftirlit með starfsemi stofnunarinnar. Kjarni Eirar er þannig samstarf margra ólíkra aðila, sem eru samankomnir í þeim eina tilgangi að veita faglega þjónustu til aldraðra.
Samstarf Eirar og Mosfellsbæjar varð því ekki til í tómarúmi en þann 7. júlí 2005, eða fyrir rúmum 20 árum síðan, undirrituðu Mosfellsbær og Eir hjúkrunarheimili svo rammasamning aðila um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ. Markmið samstarfsins var að byggja upp og efla þjónustu fyrir aldraða íbúa Mosfellsbæjar, í þeirra heimabyggð. Liður í því samkomulagi var að aðilar myndu beita sér fyrir byggingu hjúkrunarheimilis í bæjarfélaginu, út frá starfsemi Eirhamra, á lóð frá Mosfellsbæ. Hamrar hjúkrunarheimili opnaði svo árið 2013 og rak Eir hjúkrunarheimilið á grundvelli samnings við bæinn, í gegnum dótturfélagið Hamra hjúkrunarheimili. Hjúkrunarheimilið er í dag rekið á grundvelli þjónustusamnings milli Hamra hjúkrunarheimilis og Sjúkratrygginga Íslands.
Þau merku tímamót urðu svo þann 1. júlí sl. að gengið var frá samkomulagi um stækkun Hamra hjúkrunarheimilis, en ætlunin er að fjölga hjúkrunarrýmum úr 33 í 99 rými. Mikil þörf er fyrir fjölgun hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ og í raun á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mikilvægt er að stækkun heimilisins verði unnin í þéttu samráði við stjórnendur Hamra til að tryggt sé að uppbygging húsnæðisins sé unnin út frá þörfum þeirra sem þar eiga að búa og með hliðsjón af þeirri starfsemi sem þar er fyrir. Við á Eir og Hömrum fögnum mjög fyrirhugaðri stækkun og hlökkum til samstarfs um framkvæmd hennar.
Samkomulagið um stækkun Hamra kom í kjölfar undirritunar samninga í tengslum við Gott að eldast verkefni stjórnvalda í apríl sl., en með þeim samningum tók Eir hjúkrunarheimili að sér veitingu samþættrar heimaþjónustu í Mosfellsbæ, dagþjálfunin Hlýjan var stækkuð og efld, auk þess sem verkefni um heimaendurhæfingarteymi var sett af stað.
Umtalsverð uppbygging hefur því átt sér stað í öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ í gegnum áratuga samstarf Eirar og Mosfellsbæjar og er sú uppbygging enn í fullum gangi. Markmið Eirar er það sama í dag og fyrir 32 árum síðan, það er að veita framúrskarandi öldrunarþjónustu til hrumra og veika sem þess þurfa í samfélaginu. Við hlökkum til að þjónusta íbúa Mosfellsbæjar næstu áratugi og þökkum það mikla traust og þann stuðning sem Mosfellsbær hefur sýnt stofnuninni í gegnum árin.
Eybjörg H. Hauksdóttir,
forstjóri Eirar, Skjóls og Hamra