Uppbygging í miðbæ Mosfellsbæjar
Uppbygging í miðbæ Mosfellsbæjar er að hefjast af fullum krafti. Auglýstar hafa verið lóðir fyrir fjölbýli við Þverholt og svo núna síðast við Bjarkarholt og Háholt.
Í Þverholti stendur til að byggja 30 leiguíbúðir í bland við 12 íbúðir á almennum sölumarkaði. Til úthlutunar eru lóðir við Bjarkarholt og Háholt þar sem áætlað er að byggja að minnsta kosti 52 íbúðir í fjölbýli.
Ásýnd og þéttleiki byggðar í miðbænum mun því breytast talsvert á næstu misserum í takt við nýlegt deiliskipulag miðbæjarins. Sérstaklega mun verða breyting í Háholti þar sem húsið sem stendur þar númer 23, og hefur hýst margvíslega starfsemi, verður endurbyggt frá grunni í samræmi við núgildandi skipulag. Í útboðsskilmálum er kveðið á um uppkaup á húsinu og endurbyggingu eða niðurrif.
Auðugra mannlíf
„Það er okkar von að fleiri íbúðir miðsvæðis í Mosfellsbæ muni skila sér í enn auðugra mannlífi og aukinni verslun og þjónustu í bænum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Hann upplýsti jafnframt að verið væri að leggja lokahönd á samninga við fyrirtæki á vegum verktakafyrirtækisins Ris vegna uppbyggingar í Þverholtinu og að framkvæmdir þar muni líklega hefjast í sumar.