Undirskriftarlistar afhentir

Hanna Samsted og Sveinbjörg Pálsdóttir frá Biskupsstofu taka við undirskriftalistunum frá Mosfellingunum Helgu, Hilmari, Systu, Þorbjörgu og Jakobi litla. Hópurinn hefur staðið fyrir söfnun síðustu daga.

Hanna Samsted og Sveinbjörg Pálsdóttir frá Biskupsstofu taka við undirskriftalistunum frá Mosfellingunum Helgu, Hilmari, Systu, Þorbjörgu og Jakobi litla. Hópurinn hefur staðið fyrir söfnun síðustu daga.

Rúmlega þriðjungur sóknarbarna í Lágafellssókn hefur skrifað undir áskorun um að prestskosning fari fram. Sr. Skírnir Garðars­son lét af störfum um áramótin og hefur biskup Íslands auglýst laust til umsóknar embætti prests í Mosfellsprestakalli frá 1. mars. Þeim presti er ætlað að starfa við hlið sr. Ragnheiðar Jónsdóttur sóknarprests.
Stuðningshópur Arndísar Linn hefur staðið fyrir söfnun undirskriftanna og skilað þeim á tilsettum tíma til Biskupsstofu.
Umsóknarfrestur um starfið rennur út 9. febrúar og má ætla að framkvæmd kosninga verði ákveðin í framhaldinu.

Jákvæðni meðal bæjarbúa
„Undirtektirnar voru mjög góðar,“ segir Helga Kristín Magnúsdóttir talsmaður stuðningshóps Arndísar Linn. „Greina mátti mikla jákvæðni meðal íbúa bæjarins og þökkum við kærlega fyrir móttökurnar og auðveldlega náðist í tiltekinn fjölda undirskrifta. Þá viljum við einnig koma á framfæri þakklæti til þeirra sem hjálpuðu okkur að safna undirskriftunum, án þeirra hefði þetta ekki tekist.
Með kosningu í embættið er verið að dreifa valdi og ábyrgð meðal íbúa bæjarins og taka ákvörðun um embættið á friðsamlegan máta.
Það er því okkar von að á næstunni verði boðað til kosninga og Mosfellingar hafi um það að segja hver muni gegna stöðunni,“ segir Helga Kristín að lokum.