Umhverfisstefna með hliðsjón af heimsmarkmiðum
Mosfellsbær hefur markað umhverfisstefnu með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Mosfellsbær er fyrsta íslenska sveitarfélagið sem setur sér ítarlega umhverfisstefnu með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Markmiðið með vinnunni var að setja fram stefnu um hvernig Mosfellsbær geti þróast á sjálfbæran og framsækinn hátt á næstu árum í samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Umhverfisstefnan hefur nú verið gefin út og birt á heimasíðu sveitarfélagsins.
Ábendingar frá íbúum um áherslur
Umhverfisnefnd leiddi vinnu við mótun stefnunnar og lögð var áhersla á að hafa hana einfalda í framsetningu og þannig sem aðgengilegasta. Leitað var aðstoðar sérfróðra aðila við gerð stefnunnar og haldnir opnir íbúafundir þar sem kallað var eftir tillögum og ábendingum frá íbúum um áherslur í málaflokknum. Loks átti vinna við mótun umhverfisstefnunnar sér stað á milli kjörtímabila sem er fallið til þess að byggja undir sátt og skilning um stefnuna hjá kjörnum fulltrúum.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru grunnur að endurskoðun umhverfisstefnu Mosfellsbæjar. Í hverjum kafla er gerð grein fyrir því hvaða kafla heimsmarkmiðanna er litið til með megináherslu á 11. kafla sem lýtur að sjálfbærni sveitarfélaga, skipulagi þeirra og uppbyggingu. Heimsmarkmiðin verða á næstu misserum lögð til grundvallar við aðra stefnumörkun sveitarfélagsins eins og við endurnýjun aðalskipulags Mosfellsbæjar svo nokkuð sé nefnt.
Í skýrslu Nordregio, norrænnar fræðastofnunar í skipulags- og byggðarmálum er ný umhverfisstefna Mosfellsbæjar tekin sem fyrirmyndardæmi um hvernig sveitarfélög geta innleitt heimsmarkmiðin í sinni starfsemi og þjónustu.
Smelltu hér til að skoða umhverfisstefnu Mosfellsbæjar.