Umdeild hugmynd að stækkun golfvallar
Á dögunum rakst ég á að tekin hafi verið sú ákvörðun að slá tveimur ólíkum málaflokkum saman og sameina skipulagsmál og umhverfismál meðal nefnda í Mosfellsbæ. Þessi ákvörðun var tekin í fyrravor og frá og með júní 2025 fer þessi nefnd með bæði skipulags- og umhverfismál.
Það verður að segja sem er að ótalmargt ólíkt er með þessum málaflokkum. Við skipulagsmál er lögð áhersla á sem hagkvæmustu landnýtingu oftast í þágu þeirra sem byggja sem og öryggi. Hins vegar fást umhverfismálin við að vernda umhverfið þar sem yfirleitt engir fjárhagslegir hagsmunir koma við sögu.
Hvernig þessi ákvörðun hefur verið rökstudd hefur farið býsna hljótt um. Er kannski verið að fara nákvæmlega sömu leið og þegar Guðlaugur Þór sameinaði orkumálin og umhverfismálin þegar hann varð ráðherra beggja þessara málaflokka hérna um árið? Með því gerði hann umhverfismál hornreka.
Um þetta þurfa að fara fram umræður: Hverjir stóðu fyrir þessari breytingu og hver er tilgangurinn?
Þá er komið að því sem mig langar til að beina athygli Mosfellinga að: Fyrir liggur hugmynd um stækkun aðalgolfvallar Mosfellsbæjar. Mér þykir hún vera allbrött hugmynd um nýjar þrjár brautir sem bætast við sem merktar eru 4, 5 og 6 á meðfylgjandi uppdrætti. Nánar má um þessa hugmynd skoða á heimasíðu Mosfellsbæjar í fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar 12.12.2025, dagskrárliður 3.
Með fullum skilningi fyrir þessari tómstund þá sé ég ekki annað en hugmyndin muni þrengja býsna mikið að öðrum áhuga- og útivistarmálum okkar Mosfellinga. Ef þessi hugmynd nær brautargengi þá teygist golfvallarsvæðið allt frá ósum Úlfarsár við mörk Reykjavíkur og langleiðina að hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ. Aðeins örfáir metrar eru frá skolpdælustöðinni við brennusvæðið og að athafnasvæði hestamannafélagsins.
Bakkarnir neðan við Arnartanga hafa lengi verið okkur kærir sem margra annarra. Það var lengi vel einn aðalvettvangurinn í nánasta umhverfi okkar í frístundum. Smám saman hefur það verið að gróa upp, töluvert skóglendi hefur myndast með fjölbreyttum trjágróðri sem veitir gott og mikið skjól bæði fyrir okkur mannfólkið sem og fuglana sem margir eiga sér þarna gott næði.
Þarna hef ég ásamt fjölda Mosfellinga notið nærveru náttúrunnar, þarna hafa orðið til margar hugmyndir að flestu af því sem ég hef fengist við að skrifa í meira en fjóra áratugi: greinar í blöð og tímarit og meira að segja alllangt skáldverk, Löngu horfin spor. Því miður hefur afar lítið verið fjallað opinberlega um það.
Ef land verður tekið undir golfið, þá þrengist fyrir ýmsu öðru. Trjálundirnir norður af Arnartanganum, vettvangur fuglaskoðunar, yrðu felldir meira og minna til að koma fyrir snöggslegnum brautum. Þessi hugsunaháttur er orðinn ríkjandi í rekstri Mosfellsbæjar: öll opinber svæði eigi að vera snöggslegin eins og fínustu golfbrautir! Engar blómabrekkur eiga lengur að sjást sem eru venjulegu fólki til yndisauka. Um tugur sumarbeitarhólfa mun hverfa. Mér finnast hestarnir prýða Mosfellsbæinn okkar og það þykir væntanlega flestum. Öryggi hestafólks þarf að tryggja en golfbrautir eru hugsaðar beggja megin við gamla reiðstíginn.
Nauðsynlegt verður í náinni framtíð að aðgreina betur gangandi og hjólandi vegfarendur en stígarnir eru börn síns tíma, víðast mjóir og býsna úr sér gengnir.
Guðjón Jensson
arnartangi43@gmail.com





