Töluverð endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fór fram laugardaginn 10. febrúar. Tólf frambjóðendur gáfu kost á sér og tæplega 700 manns greiddu atkvæði. Kosið var í félagsheimili flokksins í Kjarna.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar varð efstur í prófkjörinu.
Hann er ánægður með niðurstöðuna og væntanlegan lista. „Þetta er breiður hópur fólks á ólíkum aldri, með fjölbreytta menntun og reynslu. Þarna eru 4 konur og 4 karlar í 8 efstu sætunum en umfram allt fólk sem er tilbúið að leggja allt sitt af mörkum fyrir Mosfellinga,“ segir Haraldur.
Í kvöld, fimmtudaginn 22. febrúar, mun kjörnefnd leggja fram tillögu að listanum í heild sinni á aðalfundi Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Mosfellsbæ. Þá fara einnig fram aðalfundir Sjálfstæðisfélagsins og Viljans, félags ungra sjálfstæðismanna.
Efstu átta sætin röðuðust þannig:
1. Haraldur Sverrisson
2. Ásgeir Sveinsson
3. Kolbrún Þorsteinsdóttir
4. Rúnar Bragi Guðlaugsson
5. Arna Hagalínsdóttir
6. Hafsteinn Pálsson
7. Helga Jóhannesdóttir
8. Kristín Ýr Pálmarsdóttir
Bjóða bæjarbúum með í málefnavinnu
Haraldur Sverrisson oddviti sjálfstæðismanna hlaut afgerandi kosningu í 1. sæti listans. Alls greiddu 663 atkvæði í prófkjörinu. Haraldur fékk 545 atkvæði alls og þar af 423 í 1. sæti.
„Ég er afar þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem ég fékk í prófkjörinu. Það varð töluverð endurnýjun á listanum enda gáfu tveir bæjarfulltrúar ekki kost á sér í þetta skipti. Það gefur nýju fólki tækifæri og niðurstaðan, prófkjörið sjálft og dreifing atkvæða endurspeglar það. Mjótt var á mununum í mörg sæti. Niðurstaðan er góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og samfélagið okkar hér í Mosfellsbæ. Nú hefst málefnavinnan og við munum bjóða bæjarbúum þátttöku í því starfi. Með sterkan málefnagrundvöll og svona góðan hóp fólks er ég viss um að flokkurinn muni fá góðan hljómgrunn í kosningunum í vor.“
Arna og Ásgeir ný á lista
Arna Hagalíns og Ásgeir Sveinsson gáfu bæði kost á sér í fyrsta skipti og náðu tilsettum árangri.
„Ég er ómetanlega þakklát fyrir stuðninginn og hef óbilandi trú á Mosfellingum og bænum okkar,“ segir Arna. „Ég veit að mínir styrkleikar ásamt menntun minni, þekkingu og reynslu munu koma að góðu gagni í samhentum hópi bæjarstjórnarfólks. Markmið mitt er hagur okkar allra.“
Ásgeir tekur í sama streng og segist mjög ánægður með þann frábæra stuðning sem hann fékk. „Ég hlakka til að vinna með þessu öfluga fólki á listanum og markmiðið er að sjálfsögðu að halda meirihluta áfram eftir kosningarnar í vor.“