Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Það er eitthvað heillandi við nýárssólina sem vermir okkur þessa fyrstu janúardaga og gefur fyrirheit um bjartari framtíð.
Aðventan og jólin að baki með jólaskreytingum sem lýsa upp umhverfið í myrkasta skammdeginu.
Desember er skemmtilegur tími í starfi bæjarstjóra, það er mikið um viðburði á vegum bæjarins, kirkjunnar, félagasamtaka og annarra sem er mjög gefandi og mikilvægt að taka þátt í. Hér voru margir markaðir haldnir, tónleikar, aðventukvöld og fleira sem gladdi hugann.
Sá árstími sem nú er runninn upp er hinsvegar tími fyrirheita og framkvæmda og eftir því sem sólin skín hærra á lofti; þeim mun hærra orkustig.
Bæjarstjórn samþykkti á árinu að ganga til samninga við Malbikstöðina og Íslenska gámafélagið um snjómokstur og viðmiðum var breytt í nýjum samningum með það að markmiði að bæta þjónustuna. Þá var ákveðið að leggja aukna áherslu á gönguleiðir sem bærinn sjálfur annast og bætt við nýju snjómoksturstæki fyrir þjónustustöðina. Það hefur svo sannarlega reynt á okkar fólk þessa síðustu daga í desember og þá fyrstu í janúar og bæði verktakar og starfsmenn bæjarins eiga hrós skilið fyrir góða vinnu.
Talandi um snjó þá eru það oft litlu verkefnin sem gleðja. Á árinu gerðum við samning við Icebike Adventure sem halda úti facebook síðunni Sporið um lagningu gönguskíðabrauta við Blikastaði og á Hafravatni. Þetta vakti mikla lukku og við höldum því áfram í vetur.
Annað gleðilegt verkefni sem var unnið með sömu aðilum var lagning fjallahjólabrautar í Ævintýragarðinum. Hjólabrautin sem er um eins kílómetra löng var mjög vinsæl í sumar og er skemmtileg viðbót við útivistarmöguleika í bænum. Þá var frísbígolfvöllurinn færður til og stækkaður og það er svo sannarlega hægt að mæla með heimsókn þangað.
Menningin hefur blómstrað sem aldrei fyrr á liðnu ári og þar hefur Hlégarður leikið stórt hlutverk og hver viðburðurinn rekið annan. Ég held að það ríki mikil sátt á meðal bæjarbúa um þá ákvörðun Mosfellsbæjar að taka yfir reksturinn, en á árinu var farið í breytingar innanhúss sem hafa skapað hlýlegri umgjörð og aukið notagildi hússins.
Annað sögufrægt hús í bænum, Brúarland, fékk einnig nýtt hlutverk á árinu, þegar félagsstarf aldraðra og FAMOS fluttu inn með sína starfsemi, en 1. og 2 . hæð hússins hafa verið endurgerðar. Félagsstarfið nýtur sín afar vel í fallega uppgerðu húsinu og það ríkir almenn ánægja á meðal eldri borgara með þessa ráðstöfun.
Húsin Hlégarður og Brúarland eru vissulega falleg og söguleg umgjörð utan um starfsemina, en hjartað í blómlegu starfi beggja húsanna er starfsfólk sem leggur líf og sál í verkefnið. Fyrir það ber að þakka. Sama má segja um okkar góða Bókasafn og listasal, þar hefur mjög fjölbreytt starfsemi verið á árinu.
Í haust fékk Listaskólinn í Mosfellsbæ nýjan flygil sem er staðsettur í Hlégarði en skólinn blómstrar sem fyrr undir forystu okkar góða skólastjóra og kennara. Barnadjasshátíðin í Mosfellsbæ var haldin í annað sinn í vor og Skólahljómsveit Mosfellsbæjar hélt upp á 60 ára afmæli sitt með flottum tónleikum í Hlégarði.
Einn af eftirminnilegustu viðburðum ársins var útnefning heiðursborgara Mosfellsbæjar þar sem Birgir D. Sveinsson fyrrum skólastjóri Varmárskóla og stjórnandi skólahljómsveitarinnar í 40 ár var útnefndur við hátíðlega athöfn við Varmárlaug á þjóðhátíðardaginn. Skólahljómsveitin lék einmitt í fyrsta sinn opinberlega við vígslu laugarinnar þann 17. júní 1964.
Það má segja að árið 2024 hafi einnig verið viðburðaríkt þegar kemur að íþróttunum. Íþróttafólkið okkar hefur staðið sig afburðavel á árinu. Við fylgdumst gríðarlega stolt með ólympíufaranum okkar í kúluvarpi, Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur, sem stóð sig afar vel og allt ætlaði um koll að keyra þegar meistaraflokkur karla í fótbolta fór upp í efstu deild. Meistaraflokkur kvenna í blaki vann deildarbikarinn og meistaraflokkur karla í handbolta fékk silfrið á Íslandsmótinu. Þá er íþróttafólkið okkar í einstaklingsgreinum að gera mjög góða hluti eins og tilnefningar ársins bera glöggt vitni um.
Í vor og sumar voru haldin fjögur stór íþróttamót í Mosfellsbæ. Íslandsmeistaramót í skák, öldungamót Blaksambands Íslands, Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum og alþjóðlegt golfmót eldri kylfinga.
En við erum víðar með öflugt sjálfboðastarf en í íþróttunum. Meðal annars í Leikfélagi Mosfellssveitar sem setti upp tvær metnaðarfullar sýningar á árinu, Línu langsokk og Yl. Þá er öflugt ungmennastarf hjá skátunum og björgunarsveitinni Kyndli. Svona félög eru hverju samfélagi ómetanleg og mörg ungmenni sem finna sína fjöl í slíkum félagsskap. Við sem samfélag misstum mikið þegar Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson formaður björgunarsveitarinnar Kyndils lést við æfingu í byrjun nóvember. Blessuð sé minning hans.
Mörg stór verkefni voru kláruð á árinu 2024 eins og gagngerar endurbætur á jarðhæð Kvíslarskóla og nýr búsetukjarni fyrir fatlaða einstaklinga í Úugötu var tilbúinn í lok árs. Þroskahjálp byggði húsið fyrir Mosfellsbæ. Endurbótum á Reykjakoti var lokið á árinu en þær fólust í byggingu eldhúss og aðstöðu fyrir starfsfólk í nýrri byggingu. Þá er verið að ljúka við íþróttasal og búningsherbergi í Helgafellsskóla og bygging leikskóla í Helgafellshverfinu er langt komin, en það verkefni og endurgerð Varmárvallar eru stærstu uppbyggingarverkefni bæjarins þessi misserin. Þá var hafist handa við gatnagerð á athafnasvæði Reita við Korputún og gatnagerð lokið í 5. áfanga í Helgafellshverfi ásamt yfirborðsfrágangi og gerð leikvallar í 4. áfanga sem fyrirtækið Bakki annaðist.
Starfsfólkið okkar í leik- og grunnskólum, félagsmiðstöðvum og velferðarþjónustu vinnur stóra og smáa sigra á hverjum degi í kennslu og umönnun en við vorum gríðarlega stolt þegar Helgafellsskóli fékk íslensku menntaverðlaunin fyrir verkefnið Snjallræði en þær Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri og Málfríður Bjarnadóttir helsti hvatamaður verkefnisins tóku á móti verðlaununum. Þá var Dóra Wild á Hlaðhömrum einnig tilnefnd sem kennari ársins fyrir framúrskarandi starf.
En árið 2024 átti vissulega sínar dimmu hliðar, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga og stríðsátök sem herja víða um heiminn, meðal annars í Úkraínu og á Gasa. Þá eru blikur á lofti í öryggis- og varnarmálum sem við sem þjóð þurfum að taka alvarlega.
Hér á Íslandi fór samfélagið í dimma dali þegar ung stúlka í blóma lífsins lést eftir hnífstunguárás á menningarnótt og skömmu síðar féll önnur ung stúlka, þar sem grunur leikur á um morð af nánum fjölskyldumeðlim. Þá eru ótalin öll þau ungmenni og það unga fólk sem hefur fallið frá, vegna ofneyslu fíkniefna eða vegna sjálfsvíga. Þær tölur hafa vaxið með ískyggilegum hraða og það er ljóst að við verðum sem samfélag að veita þessum málum, ofbeldi á meðal barna og ungmenna, vímuefnavanda og geðheilbrigðismálum miklu meiri gaum. Við höfum hreinlega ekki efni á sem þjóð að missa ungt fólk í blóma lífsins.
Tilkynningum til barnaverndar í Mosfellsbæ fjölgaði um tæplega 50% á árinu og enda í 770 tilkynningum þar sem um 300 börn eiga í hlut. Það eru of háar tölur og ljóst að við verðum líka að bregðast við í okkar kerfi, til að fyrirbyggja frekari þróun í þessa átt.
Það var því gleðilegt skref þegar bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti 27 aðgerðir undir heitinu Börnin okkar og leggur 100 milljónir aukalega í forvarnir á árinu 2025.
Ég hef að undanförnu haldið fundi með kennurum og öðru starfsfólki skólanna í Mosfellsbæ til að kynna verkefnið og átt frábær samtöl við skólafólkið okkar um þessi skref sem við erum að taka. Þá hafa foreldrar tekið vel í aukna þátttöku og foreldrarölt haustsins farið afar vel af stað.
Við ráðum ekki við náttúruöflin og höfum takmörkuð áhrif á gang heimsmála, vegna smæðar samfélagsins. Við ráðum hinsvegar við það verkefni að búa börnum og ungmennum betri umgjörð til að tryggja vellíðan þeirra og öryggi. Það er ákvörðun sem við getum tekið.
Tökum því höndum saman, öll sem eitt í því að viðhalda hér góðu og barnvænu sveitarfélagi í Mosfellsbæ. Ekkert getur verið mikilvægara en það.
Að endingu vil ég þakka ykkur öllum fyrir afar ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða, íbúum, starfsfólki Mosfellsbæjar, kjörnum fulltrúum, forsvarsfólki félagasamtaka og stofnana, fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum.
Megi árið 2025 verða ár friðar og farsældar.
Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri Mosfellsbæjar