Tindahlaupið í boði Nettó
Næstu tvö árin mun Tindahlaup Mosfellsbæjar bera nafnið Tindahlaup Mosfellsbæjar í boði Nettó en á dögunum skrifuðu Mosfellsbær, Nettó og aðstandendur Tindahlaupsins undir tveggja ára samstarfssamning þar um.
Aðspurð segist Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir markaðsstjóri Samkaupa hlakka til samstarfsins en markmið Nettó væri að styðja við íþróttastarf á landsvísu. „Við styðjum margþætt æskulýðs- og forvarnarstarf á landsvísu sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og endurspeglast þessir þættir að öllu leyti í samstarfinu við Tindahlaupið,“ segir Ingibjörg Ásta.
Nettó opnaði verslun í Sunnukrika í Mosfellsbæ í byrjun júní í fyrra. Í versluninni er m.a. að finna gríðarlegt úrval af heilsuvörum fyrir hlaupara og alla sem huga að heilsunni.
Fjórar vegalengdir í boði 27. ágúst
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Tindahlaupið skemmtilegt og krefjandi utanvegahlaup sem haldið er síðustu helgina í ágúst ár hvert í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima.
Hlaupið býður upp á fjórar leiðir og vegalengdir eða 1, 3, 5 og 7 tinda þar sem hlaupið er um fjöll, heiðar og dali Mosfellsbæjar. Geta því allir áhugasamir fundið leið og vegalengd við sitt hæfi í hlaupinu, óháð fyrri hlaupareynslu eða -getu.
Fyrir utanvegahlaupara sem stefna á hlaup erlendis má greina frá því að Tindahlaupið hefur staðist kröfur ITRA (International Trail Running Association) og fengið þrjár af fjórum hlaupaleiðum viðurkenndar sem punktahlaup.
Nánari upplýsingar um hlaupið er hægt að nálgast inn á vefsíðunni Tindahlaup.is.