Tilhlökkun

Ég las viðtal við unga konu í síðustu viku. Hún er á leiðinni til Ungverjalands með eiginmanni sínum og börnum, en þar ætla þau að búa næstu árin. Hún sagði í viðtalinu frá ástæðum þess að þau væru að flytja og hvernig þau hefðu undirbúið sig fyrir þetta spennandi stökk. Mér finnst alltaf gaman að lesa um fjölskyldur sem láta vaða, þora að kýla á draumana og framkvæma þá. Láta ekki mögulegar hindranir standa í veginum, heldur finna leiðir til þess að breyta hindrunum í verkefni sem hægt er að leysa. Það sem drífur þessa ungu konu áfram í lífinu er tilhlökkunin – að hafa eitthvað að hlakka til. Eitthvað spennandi, áskorun, eitthvað sem brýtur upp rútínuna.

Eitt þarf ekki að útiloka annað. Tilhlökkun fer vel saman með því að njóta dagsins, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og gera það besta úr hverjum degi. Tilhlökkunin getur einmitt verið sterkur hvati til þess að njóta hversdagsins betur. Ég hlakka til að fara í þrautahlaup með frábæru fólki eftir nokkrar vikur, það hvetur mig til að njóta þess að fara á fell og fjöll og gera eitthvað daglega til þess að auka líkurnar á því að þrautahlaupið sjálft verði skemmtilegt og gefandi.

Bæjarhátíðin okkar, Í túninu heima, er helgi sem margir hlakka til, enda fjöldi viðburða í boði fyrir unga sem aldna. Eitt af því besta við hátíðina er hvað margir taka þátt í að gera hana skemmtilega, það er pláss fyrir alla og ótal tækifæri til þess að búa til viðburð eða vera með í þeim viðburðum sem eru í gangi.

Tilhlökkun snýst líka um daginn í dag og daginn á morgun. Ég hlakka þannig alltaf til þess að vakna á morgnana, hella upp á kaffi og fara í gegnum morgunrútínuna mína – það er mikilvægt að byrja daginn vel.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. ágúst 2023