Til minnis - ekki gleyma að gefa af þér
Fátt hefur betri áhrif á okkar líðan og andlega og félagslega heilsu en að umgangast fjölskyldu og vini sem hafa góð áhrif á okkur. Fólk sem er styðjandi, hvetjandi, jákvætt og sýnir okkur skilning og hefur trú á okkur.
Það er merkilegt að á okkar tímum þegar tækifærin og tæknin er mikil að þá sé á sama tíma mjög mikil félagsleg einangrun. Oft er talað um að hún sé algengari hjá eldra fólki en það er svo sannarlega ekki einungis þar, heldur á öllum aldursstigum, og sorglegt að heyra að félagsleg einangrun sé að færast niður aldursstigann allt niður í ung börn. Þess vegna er mikilvægt að allir minni sig á það að huga vel að náunganum, hvetja aðra áfram, brosa og vera vingjarnlegur.
Samvera skiptir máli
Gefum okkur tíma til þess að eiga margar og góðar samverustundir og hafa það gaman saman. Í Mosfellsbæ erum við með öflugt íþrótta- og tómstundastarf og nefni ég öflugt starf Aftureldingar, geggjaðan golfvöll og frábært starf þar, hestamannafélagið Hörð sem er til fyrirmyndar, frábært skátastarf og mjög öfluga björgunarsveit, Kyndil.
Já, bæjarfélagið okkar Mosfellsbær býður upp á mikið úrval af fjölbreyttri og skemmtilegri afþreyingu, svo sem sundlaugaferðir í góðu sundlaugarnar okkar, hér er fullt af góðum stikuðum gönguleiðum á fellin okkar og nágrenni.
Það eru hjólastígar sem og góðir samgöngustígar, skemmtilegir leikvellir og skólalóðir sem er verið að bæta í samvinnu við nemendur og starfsfólk. Það eru battavellir, körfuboltavellir, Stekkjarflötin góða og svo Ævintýragarðurinn með allan sinn sjarma. Í vetur var líka gerður samningur við Sporið um að leggja skíðagöngubrautir hér víðsvegar um bæinn sem voru mikið notaðar enda ekki leiðinlegt að hafa skíðabraut í bakgarðinum sínum.
Félag eldri borgara er líka með mjög fjölbreytt íþrótta- og tómsundastarf. Maður getur hreinlega hlakkað til að eldast og fá að taka þátt í því fjölbreytta starfi.
Það sem er alveg glænýtt og var að bætast við er fjallahjólabrautin sem kölluð er „Flækjan“. Hún var formlega opnuð á bæjarhátíðinni Í túninu heima og hefur heldur betur slegið í gegn. Brautin er staðsett í Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ. Þessi skemmtilega tæknibraut er um eins kílómetra löng og hentar bæði byrjendum sem og lengra komnum. Þessi vinna er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Heilsueflandi samfélags, Icebike Adventures og hjóladeildar Aftureldingar.
Magne Kvam frá Icebike Adventures hannaði og lagði brautina ásamt sjálfboðaliðum og stökkpallana smíðaði Sindri Hauksson en ungir iðkendur í hjóladeild Aftureldingar eiga heiðurinn af nafngiftinni.
Einnig var frisbígolfvöllur Mosfellsbæjar endurvígður eftir breytingar en framkvæmdir við hann hafa staðið yfir í sumar. Búið er að færa til brautir og leggja heilsárspalla þannig að nú er hægt að spila þessa fjölskylduvænu íþrótt allt árið um kring.
Forvarnir, lýðheilsa og farsæld
Meirihlutinn í bæjarstjórn leggur afar mikla áherslu á hvers kyns forvarnir og lýðheilsu og teljum við að fjölbreytt afþreying í bænum okkar skili ánægju, gleði og enn betri andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu.
Samvera og góð samskipti eru lykillinn að farsæld auk þess sem bros og dillandi hlátur gerir svo mikið fyrir alla, alveg sama á hvaða aldri manneskjan er. Gleðin skipar nefnilega óneitanlega stóran sess í vellíðan okkar.
Það er þó mikilvægt að við hjálpumst öll að við að skapa samfélag sem byggir á góðum gildum og fallegum bæjarbrag. Látum gott af okkur leiða til barnanna okkar, fjölskyldu, nágranna og vina og búum saman til félagslega töfra.
Halla Karen Kristjánsdóttir,
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar