Því það skiptir mig máli
Það er farið að síga á seinni hluta líðandi kjörtímabils. Ég kom ný inn í starfið fyrir að verða fjórum árum síðan og þegar ég horfi til baka, vissi ég lítið út í hvað ég var að fara. Lærdómsbrekkan var brött í fyrstu og ég einbeitti mér að því að komast inn í bæði málefnin og starfið sjálft.
Á þessum tíma sem hefur liðið hef ég öðlast dýrmæta reynslu og lærdóm og er enn að læra. Ég hef einnig kynnst góðum og fjölbreyttum hópi fólks. Öll höfum við eitthvað til brunns að bera. Við erum öll ólík, með ólíkar skoðanir, markmið og áherslur og ekki síst með ólíkar aðferðir að hlutunum. Það sem við, sem gefum kost á okkur í starfið, eigum hins vegar sameiginlegt, er að okkur er ekki sama um samfélagið okkar og erum tilbúin að leggja tíma okkar og vinnu til að tryggja það og bæta.
Það sem ég hef einnig lært, er að starf bæjarfulltrúa er ekki einstaklingsíþrótt. Ef ég held mig við samlíkinguna við íþróttaheiminn, þá mætti segja að um hópíþrótt sé að ræða, þar sem þú þarft jafnvel að spila í liði með andstæðingunum. Þar af leiðir að við sem einstaklingar þurfum oft á tíðum að gera málamiðlanir og spila með öllum hópnum til þess að ná árangri. Árangri fyrir bæinn okkar, sem er það sem skiptir okkur öll mestu máli. En það er einmitt vegna væntumþykju í garð heimabæjar míns sem ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér í áframhaldandi starf í þágu bæjarins með þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í byrjun næsta árs.
Í Mosfellsbæ ólst ég upp og er svo lánsöm ala börnin mín upp. Mosfellsbær hefur óteljandi kosti og ákveðna sérstöðu sem sveit í borg, með náttúruna, fjöllin og fuglalífið allt um kring. Það skiptir mig máli að hér sé og verði áfram gott að búa en til þess þarf að huga m.a. að þeim þáttum sem snerta velferð fjölskyldna og íbúa bæjarins. Huga þarf að aðgengi að þjónustu og afþreyingu, aðgengi að öflugu og vönduðu íþrótta- og tómstundastarfi og viðeigandi stuðningi fyrir þá nemendur sem þurfa á sértækum úrræðum að halda á öllum skólastigum.
Mig langar að halda áfram að leggja mitt af mörkum til að vinna að hagsmunum bæjarins og bæjarbúa til framtíðar.
Jana Katrín Knútsdóttir,
bæjarfulltrúi og frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ




