Þorrablót Aftureldingar fer fram 23. janúar

systur

Undirbúningur árlegs þorrablóts Aftureldingar stendur nú sem hæst, en það fer fram í íþróttahúsinu að Varmá laugardaginn 23. janúar. Miðasala er þegar hafin á Hvíta Riddaranum, en borðapantanir fara fram fimmtudaginn 14. janúar kl. 19:30 – 20:30, einnig á Hvíta Riddaranum.
„Undanfarin tvö ár hefur verið uppselt hjá okkur og í ár ætlum við að stækka salinn aðeins og vera bæði með hring- og langborð. Við ætlum að bjóða upp á 10 manna hringborð sem eru seld í heilu lagi ásamt fljótandi veigum og hægt er að velja þessi borð strax þegar þau eru keypt,“ segir Ásgeir Sveinsson varaforseti þorrablótsnefndar.

Lambalæri fyrir þá sem ekki vilja þorramat
„Ég er mjög spenntur fyrir því að skemmta í Mosó,“ segir Sóli Hólm sem verður veislustjóri kvöldsins. „Þetta er þorrablót sem ég hef heyrt talað um sem eitt af þeim allra skemmtilegustu. Hef heyrt að þangað mæti bara fólk með góðan húmor og söng í hjarta. Umhverfi sem ég og gítarinn minn pössum vel inn í,“ segir Sóli en Ingó Veðurguð ásamt Sverri Bergmann munu svo sjá um fjörið á dansgólfinu.
Tríóið Kókos mun taka vel á móti veislugestum og Geiri í Kjötbúðinni sér um veitingarnar og býður upp á hefðbundinn þorramat ásamt lambalæri og Bearnaise fyrir þá sem ekki treysta sér í þorrann.
„Sú hefð hefur skapast að hópar komi og skreyti borðin sín. Mikill metnaður er í skreytingum og góð stemning í salnum þegar þetta fer fram. Skreytingarnar fara fram kl. 12-13:30 á blótsdegi,“ segir Ásgeir og hvetur alla til að fylgjast með framgangi mála á Facebook-síðu þorrablótsins.
Þorrablót Aftureldingar verður nú haldið í 9. skipti í þeirri mynd sem það er nú og er ein stærsta fjáröflun félagsins.