Þolinmæði og þrautseigja
Febrúar er hressandi mánuður. Það er svalt, það er stormasamt, það er allra veðra von. En febrúar er líka stysti mánuður ársins, líka þegar það er hlaupár eins og í ár. Ég er að verða mikill febrúarmaður. Hef gaman af því að vakna á morgnana og kíkja út um gluggann til að taka púlsinn á veðrinu og færðinni.
Oft kemur febrúar á óvart en hann á það líka til að detta í samfleytt skeið af eins veðri. Hann virðist vera þannig stemmdur núna, alvöru frost í kortunum eins langt og spár ná. Það þýðir að við eigum eftir að fá marga fallega sólardaga og þá er upplagt að nýta til þess að skella sér í léttar fella- eða fjallgöngur.
Við hjónin fórum á Mosfellið í gær. Sólin skein á hvítan snjóinn allt í kringum okkur, útsýnið var magnað, þetta var eins og að standa inni í póstkorti. Það var vissulega kalt, en við vorum vel klædd og fundum lítið fyrir kuldanum. Þegar mér verður aðeins kalt þessa dagana verður mér strax hugsað til La sociedad de nieve (Snjósamfélagið), bíómyndar sem yngsti sonur okkar kynnti okkur fyrir. Frábær mynd frá 2023 um atburð sem gerðist árið 1972. Þolinmæði, þrautseigja og sterkur lífsvilji eru lykilatriði í myndinni og eftir að hafa horft á hana og sett sig í spor þeirra sem þar er sagt frá, er erfitt að detta í að kvarta yfir kulda og klaka klæddur í hlý föt í upphituðu húsi á Íslandi.
Febrúar 2024 er líka sérstakur fyrir mig persónulega. Ég er að breyta til í vinnu. Legg á hilluna nokkur verkefni sem ég hef verið að fást við í mörg ár og stíg núna í febrúar inn í nýtt hlutverk sem mér finnst alveg ótrúlega spennandi og áhugavert. Óska ykkur öllum gleðilegs febrúar, njótum hans í botn!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. febrúar 2024