Þétting byggðar í Mosfellsbæ: Hvenær er nóg nóg?
Mosfellsbær stendur frammi fyrir raunverulegri húsnæðisþörf, en það er ekki sjálfgefið að svarið sé meiri þétting á minni svæðum, á sífellt skemmri tíma. Sú nálgun endurspeglar frekar drauma þeirra sem teikna bæi á blað en íbúa sem þurfa að búa við afleiðingarnar í daglegu lífi.
Uppbygging snýst ekki aðeins um fjölda íbúða, heldur líka um lífsgæði, samfélag og traust. Við þurfum því að staldra aðeins við.
Blikastaðalandið – þarf svona mikla þéttingu?
Í skipulagsgögnum fyrir Blikastaðaland er miðað við að uppsöfnuð íbúðaþörf Mosfellsbæjar næsta áratug sé á bilinu 1.300–2.400 íbúðir. Það er frekar skýr rammi. Spurningin er hins vegar hvort við séum þegar farin langt fram úr honum, áður en innviðir og samfélagslegt samþykki eru tryggð.
Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum er Blikastaðalandið um 67 hektarar að stærð og þar er gert ráð fyrir allt að 3.600 íbúðum með mjög háum þéttleika. Þar að auki er gert ráð fyrir umtalsverðu atvinnuhúsnæði. Þetta eru stærðargráður sem munu óhjákvæmilega breyta bæjarbrag, auka álag á umferð, skóla og þjónustu og hafa áhrif á daglegt líf íbúa langt út fyrir svæðið sjálft.
Það sem veldur mér mestum áhyggjum er hraðinn. Fyrsti áfangi deiliskipulagsins gerir ráð fyrir um 1.270 íbúðum ásamt leik- og grunnskóla. Ef fyrsta skrefið er svona stórt, án þess að allar forsendur séu í föstum skorðum, hver verður þá heildarmyndin þegar næstu áfangar bætast við?
Eru almenningssamgöngur það sem fólk í úthverfum vill og þarf?
Þéttingin í Blikastaðalandi er réttlætt með fyrirhugðum almenningssamgöngum, þar á meðal Borgarlínu. Samkvæmt áætlunum er ekki gert ráð fyrir að Borgarlínuleið um svæðið verði tilbúin fyrr en eftir mörg ár. Borgarlínan er þó stórt áhættuverkefni.
Fólk á höfuðborgarsvæðinu notar ekki þær almenningssamgöngur sem þegar eru til staðar í miklum mæli og ferðavenjur hafa lítið breyst síðasta áratug. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að snúa þróuninni við. Það er því full ástæða til að spyrja hvort forsendur þéttingarinnar standist í raun.
Helgafell, Keldnaland – lærdómur sem margir kjósa að horfa fram hjá
Helgafellslandið í Mosfellsbæ hefur þegar sýnt okkur hvað gerist þegar uppbygging fer fram úr innviðum og sátt við íbúa. Óánægja magnast og traust rofnar. Sama mynstur sést á Keldnalandi, þar sem lögð hefur verið til gríðarleg þétting, takmörkuð bílastæði og mikla trú á „fjölbreyttar samgöngur“.
Að feta sömu braut áfram er ekki framsýni, heldur skortur á auðmýkt gagnvart reynslunni.
Ég tel nauðsynlegt að Mosfellsbær staldri við áður en næstu áfangar Blikastaðalands eru keyrðir áfram. Ekki til að stöðva vöxt, heldur til að setja skýr og bindandi skilyrði. Fjármögnun og tímasetningar fyrir skóla, leikskóla og grunnþjónustu þurfa að liggja fyrir áður en íbúðir rísa, og raunverulegar samgöngulausnir að koma á undan íbúðamassanum. Skipulagið verður einnig að innihalda raunverulega „stopp-punkta“, þar sem hægt er að hægja á eða endurskoða þegar forsendur standast ekki.
Aðalskipulag á að vera leiðarvísir um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar, í takt við vilja bæjarbúa. Þétting byggðar má aldrei verða markmið í sjálfu sér. Þegar hún ógnar lífsgæðum og samfélagi er svarið ekki að þétta meira, heldur að staldra við og velja betri leið.
Júlíana Guðmundsdóttir, frambjóðandi í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ




