Þetta er ótrúlega gaman og gefandi
Þorrablót á uppruna sinn að rekja til 19. aldar, íslensk veisla með þjóðlegum mat, drykkjum og siðum. Mosfellingar láta ekki sitt eftir liggja í þeim efnum en þorrablót Aftureldingar er orðinn fastur liður hjá mörgum bæjarbúum í janúar. Óhætt er að segja að blótið sé einn stærsti viðburður sem fram fer innandyra í Mosfellsbæ ár hvert en það var endurvakið í núverandi mynd árið 2008.
Ása Dagný Gunnarsdóttir forseti þorrablótsnefndar segir undirbúning blótsins ganga vel og það stefni í metþátttöku í ár.
Ása Dagný fæddist í Reykjavík 13. janúar 1975. Foreldrar hennar eru Kolbrún Jónsdóttir verkakona og Gunnar Guðmundsson raftæknir en þau eru bæði látin.
Hálfbróðir Ásu Dagnýjar, samfeðra, er Steinn Gunnarsson f. 1970, kennari.
Erfiður tími í okkar lífi
„Ég bjó í Breiðholti fyrstu fimm ár ævi minnar en árið 1980 fluttum við fjölskyldan í Mosfellssveit en við bjuggum í Garði við Álafossveginn. Það var gott að alast hér upp, umhverfið frjálslegt, fullt af krökkum í hverfinu og alltaf nóg um að vera.
Þegar ég var 12 ára þá breyttist líf mitt í einni svipan, þá lést faðir minn ásamt þremur öðrum í flugslysi á Blönduósi. Við tók mjög erfiður tími í lífi okkar mömmu og hagir okkar breyttust í kjölfarið.“
Spiluðum fótbolta út í eitt
„Ég gekk í Varmárskóla og leið almennt vel í skólanum, var í sama bekknum upp í 12 ára bekk en þá færðumst við yfir í Gaggó Mos og þá var okkur skipt upp í nýja bekki. Við spiluðum fótbolta í frímínútum út í eitt sem okkur fannst ekki leiðinlegt.
Á sumrin lék maður sér á leikja- og fótboltanámskeiðum og á unglingsárunum vann maður víða á sumrin og með námi m.a. í unglinga- og bæjarvinnunni, Álafossi, sjoppum og veitingastöðum og í fiskbúð. Ég var líka leiðbeinandi á leikjanámskeiðum.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Fjölbrautaskólann í Breiðholti á íþróttabraut og útskrifaðist 1995. Þaðan fór ég svo í íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og fór svo í sjúkraþjálfun við HÍ og lauk námi þaðan 2004. Ég tók einnig námskeið hjá KSÍ til UEFA-B gráðu í þjálfun.“
Erum dugleg að hreyfa okkur
Eiginmaður Ásu Dagnýjar er Jón Smári Pétursson rafvirki, þau giftu sig árið 2006. Þau eiga þrjá syni, Gunnar Smára f. 2005, Arnar Dag f. 2007 og Steinar Kára f. 2010. „Við fjölskyldan erum dugleg að hreyfa okkur, förum á skíði og spilum golf. Synir okkar eru allir í íþróttum og við Jón erum dugleg að fylgja þeim eftir á knattspyrnumótum og í öðrum keppnum.
Ég spila blak í dag en var í fótbolta, handbolta og badminton sem barn og unglingur. Ég var íþróttastelpa fram í tær og fingurgóma,“ segir Ása og brosir. „Ég spilaði fótbolta til 25 ára aldurs og fór svo aftur að spila um fertugt með Hvíta Riddaranum. Ég var líka knattspyrnuþjálfari hjá Fram á árunum 1996-2001.
Ég flækist stundum með hlaupahópnum Morgunfuglunum og svo fer ég reglulega á Úlfarsfellið og í aðrar göngur. Að öðru leyti finnst mér gott að vera í rólegheitunum heima þegar tækifæri gefst.“
Starfsemin svipuð og áður
Eftir að Ása Dagný útskrifaðist sem sjúkraþjálfari hóf hún störf á Reykjalundi. Hún var þá ófrísk að elsta syninum en eftir fæðingarorlof færði hún sig yfir á Landspítalann. Þar starfaði hún í tólf ár, á hjarta- og lungnaskurðdeild og krabbameinsdeildunum.
„Árið 2016 starfaði ég samhliða á Heilsuborg og Landspítalanum en færði mig svo alfarið yfir á Heilsuborg 2018. Fyrirtækið varð gjaldþrota korter í Covid en tveir af samstarfsmönnum mínum stofnuðu þá Sjúkraþjálfunina Stíganda og héldu úti svipaðri starfsemi og áður. Okkur hefur þó fjölgað töluvert en við erum 20 starfsmenn í dag.
Við erum með frábæra aðstöðu, tækjasal og möguleika á hópþjálfun. Ég hef oft sagt að ég sé ofanþindar sjúkraþjálfari því ég hef mikinn áhuga á hjarta- og lungnaþjálfun en er líka töluvert að vinna með kjálka-, axla- og hálsvandamál.“
Horfir til betri vegar
Ása Dagný er öllum hnútum kunnug hjá Aftureldingu bæði sem iðkandi og sjálfboðaliði, hún var í barna- og unglingaráði hjá knattspyrnudeildinni í sjö ár og þar af þrjú ár sem formaður. Hún var útnefnd vinnuþjarkur Aftureldingar 2018 á uppskeruhátíð félagsins.
„Iðkendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár með tilheyrandi áskorunum en helsta vandamálið er æfingaaðstaðan en hún batnaði samt mikið þegar Fellið var tekið í notkun. En það horfir til betri vegar þegar gervigras verður sett á gamla aðalvöllinn og sennilega verður sú aðstaða fullnýtt um leið og hún verður tekin í notkun.“
Stefnir í stærsta blót frá upphafi
Ása Dagný kom inn í þorrablótsnefnd Aftureldingar árið 2016 og tók við sem forseti nefndarinnar 2023. Hún segir að í ár stefni í stærsta blót frá upphafi.
„Það hefur verið ótrúlega gaman og gefandi að starfa í þessari nefnd undanfarin ár. Undirbúningur fyrir svona blót hefst nánast um leið og blóti lýkur ár hvert en fer svo á fullt frá september og fram í janúar. Það er svo margt sem þarf að huga að eins og að bóka aðstöðuna, panta listamenn, hljóðmenn, borðbúnað og fleira til.
Þorrablótið er orðið fastur liður hjá Mosfellingum í janúar, þarna hittir maður gamla kunningja og skólafélaga, foreldra iðkenda í barna- og unglingastarfinu og svo er nýjum Mosfellingum á blótinu alltaf að fjölga.
Þar sem blótið fór stækkandi með ári hverju þá ákváðum við 2023 að nýta allan salinn í íþróttahúsinu að Varmá. Blótið okkar hefur það umfram önnur blót að við bjóðum gestum að mæta í hádeginu á blótsdegi og skreyta borð sín. Þar byrjar stemningin og eftirvæntingin, margir búnir að vera að undirbúa skreytingar í langan tíma og metnaðurinn er svakalega mikill,“ segir Ása og brosir.
Bjóðum alla velkomna
„Það hafa skapast hefðir hjá okkur, hópar mæta saman og margir hafa komið ár eftir ár. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt að tilheyra einhverjum hópi til að geta mætt, við bjóðum alla Mosfellinga sem og aðra velkomna.
Það er algjörlega ólýsanleg tilfinning að horfa yfir salinn þegar allir eru búnir að skreyta og allt er að smella, þá er undirbúningi þorrablótsnefndar lokið og stutt í að gleðin taki völd,“ segir Ása Dagný með bros á vör er við kveðjumst.