Það þurfa allir að kunna að bregðast við

Fyrirtækið Þitt öryggi hefur verið starfandi frá árinu 2020. Eigandi þess og framkvæmdastjóri Magnús Ingi Ingvarsson og starfsfólk hans sérhæfa sig í uppsetningu á öryggisferlum, kennslu í líkamlegum inngripum og bjóða upp á sjálfsvarnarnámskeið fyrir fyrirtæki og stofnanir.
Markmiðið er að veita almenningi þekkingu og færni til að takast á við krefjandi aðstæður sem kunna að koma upp.

Magnús fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1993. Foreldrar hans eru Bryndís Björk Karlsdóttir bókari og Ingvar Magnússon húsasmíðameistari og slökkviliðsmaður.
Magnús á fjóra bræður, Garðar Inga f. 1982, Bjarka Þór f. 1986, Arnór Inga f. 1990 og Karl Stefán f. 2000.

Með tóman poka fyrir aflann
„Ég ólst upp í Grafarvogi og það var gott að alast upp þar, ég líki því gjarnan við Mosfellsbæ. Mikið af ungu fólki með börn og nóg um að vera, maður var því sjaldnast heima við.
Mínar uppáhaldsæskuminningar eru þegar við fjölskyldan vorum að ferðast um landið, fara í útilegur og að veiða. Nú geri ég mitt allra besta til þess að gera það sama fyrir börnin mín. En sú minning sem situr kannski sem fastast eru ferðirnar okkar að Djúpavatni í Selvogi. Þar hélt föðurfjölskylda mín ættarmót árlega, alltaf um hvítasunnuhelgina. Þá lagði maður af stað upp að vatni vopnaður veiðistöng og með tóman poka fyrir aflann. Honum var svo skilað fullum þegar maður kom til baka, þá varð ég stoltur,“ segir Magnús Ingi og brosir.

Jaðaríþróttirnar komu sterkar inn
„Ég gekk í Foldaskóla og hafði gaman af því að vera í skólanum en hafði samt takmarkaðan áhuga á náminu. Ég átti alltaf erfitt með einbeitingu í þeim fögum sem fönguðu ekki áhugasvið mitt en skaraði fram úr þeim sem ég hafði áhuga á.
Fyrir mér þá snerist skólinn fyrst og fremst um félagslífið, mér fannst ég aldrei passa í þennan ramma sem allir áttu að vera í.
Ég átti auðvelt með að halda mér uppteknum á sumrin, var mestmegnis eitthvað utandyra að vesenast. Var í jarðvinnu hjá afa og handlangari hjá pabba í smíðinni. Ég lagði samt alltaf mikið kapp á íþróttir, aðallega knattspyrnu en jaðaríþróttirnar komu líka sterkar inn.
Unglingsárin snerust mestmegnis um að hitta misgóðan vinskap og eltast við stelpur.“

Uppskar sigur í öllum sínum bardögum
Eftir útskrift úr Foldaskóla lá leið Magnúsar Inga í íþróttafræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hann hefur einnig komið víða við í módelstörfum, leiklist og áhættuleik og samhliða því ákvað hann að eltast við draum um atvinnumennsku í MMA, bardagaíþrótt sem sameinar tækni úr mismunandi bardagalistum. Magnús þekkti vel til enda búinn að æfa íþróttina í tvö ár en langaði að sjá hvert hann gæti farið með þetta ef hann gæfi sig allan í það.
Árið 2014 var árið sem hann uppskar sigur í öllum sínum bardögum, fjórum talsins og vann alla í fyrstu lotu. Tveimur árum síðar lenti hann í 3. sæti á Evrópumeistaramótinu og í kjölfar mótsins hóf hann feril í atvinnumennsku þar sem hann vann alla sína bardaga í fyrstu lotu. Hann varð Íslandsmeistari í brasílísku jiu jitsui og síðan heimsmeistari viðbragðsaðila í sömu íþrótt 2023 á heimsleikunum í Winnipeg en það var hans síðasta keppni.
Magnús lauk stúdentsprófi frá Keili 2020 og hóf síðan nám í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands.

Ef veður og vindar leyfa
Magnús Ingi er trúlofaður Thelmu Rut Hermannsdóttur tannlækni. Þau eiga tvö börn, Hektor Frey f. 2019 og Heru Líf f. 2024.
„Okkur fjölskyldunni þykir fátt skemmtilegra en að fara um landið og skoða fallega staði, eins að fara í útilegur og veiðiferðir. Við förum líka mikið í sund og leggjum kapp á að prófa sem flestar sundlaugar landsins. Eins fer mikill tími í það að fylgja syninum eftir í íþróttum sem er einstaklega gaman. Já, það má eiginlega segja að ef veður og vindar leyfa þá erum við sem minnst heima við.“

Þeir þurftu útrás og utanumhald
Þegar Magnús Ingi var ungur að árum hóf hann störf á frístundaheimili, þar hófst ferill hans að starfa með börnum og ungmennum. Hann var fljótt fenginn til að vinna með drengjum sem þurftu auka útrás og utanumhald. Síðar bættist við þjálfun einstaklinga þannig að um tíma starfaði hann sem þjálfari, stuðningsfulltrúi á virkum dögum og sem dyravörður um helgar.
„Árið 2015 hóf ég störf í Vinakoti búsetukjarna, síðar Klettabæ. Þar starfaði ég sem ráðgjafi og deildarstjóri til ársins 2022. Var síðan fenginn til að stýra námskeiðum vegna hæfni minnar í bardagaíþróttum. Þetta voru gefandi ár en gátu verið erfið á köflum.
Ég ákvað síðan að breyta til og hóf þá störf sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og starfaði við það í tvö ár.“

Búa yfir áratuga þekkingu
„Árið 2020 stofnaði ég eigið fyrirtæki, Þitt öryggi. Ég fór í að stýra námskeiðum og gera fyrirbyggjandi áætlanir fyrir búsetukjarna í sjálfsvörn og inngripum en þar var vanþekkingin gríðarleg. Ég var heppinn að hafa aðgengi að frábærum sérfræðingum sem lögðu sitt af mörkum við að aðstoða mig. Þeirra þekking nýttist vel í uppsetningu fyrirbyggjandi áætlana.
Í dag er starfsemin fjölbreytt, við bjóðum upp á hin ýmsu námskeið og fyrirlestra. Við sérhæfum okkur meðal annars í uppsetningu á öryggisferlum, kennslu í líkamlegum inngripum og sjálfsvarnarnámskeið fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir.
Öryggisferlarnir eru í fyrirlestraformi þar sem farið er yfir öryggisatriði, varúðarráðstafanir og notkun á tengslamyndandi nálgun.
Á sjálfsvarnarnámskeiðunum er farið yfir grip og fastatök sem starfsmenn gætu þurft að nýta sér í neyð eða ef til líkamlegra átaka kemur. Námskeiðin eru sérsniðin að hverjum og einum vinnustað fyrir sig. Eins sérhæfum við okkur í að útfæra öryggisferla og námskeið í sjálfsvörn á vinnustað. Umsjónarmenn námskeiðanna búa yfir áratuga þekkingu í félagsþjónustu og sjálfsvörnum.“

Virk í forvarnaverkefnum
„Ég er einnig einn eiganda hjá Reykjavík MMA og starfa þar sem formaður Glímufélags Reykjavíkur. Ég get stoltur sagt frá því að við rekum þar öflugt barna- og ungmennastarf og erum virk í að taka þátt í forvarnaverkefnum með sveitarfélögum og skólum.
Það er bara þannig í lífinu að það þurfa allir að kunna að bregðast við í erfiðum aðstæðum, sama á hvaða aldri maður er. Ef hætta steðjar að þá er betra að kunna réttu handtökin, ekki frjósa, heldur velja sér hlutverk og taka skjótar ákvarðanir,“ segir Magnús Ingi að lokum er við kveðjumst.