Það er best að búa í Mosó
Svanþór Einarsson, eða Svanni eins og hann er ávallt kallaður, hefur starfað í sínum heimabæ nánast alla sína tíð og segir það mikil forréttindi. Hann byrjaði ungur í bókbandi hjá föður sínum en keypti síðan veitingastaðinn Pizzabæ þegar hann var á nítjánda ári.
Eftir að hafa selt sjóðheitar pizzur í ellefu ár breytti hann um gír og fór að selja bíla en færði sig svo yfir í fasteignabransann og stýrir í dag daglegum rekstri hjá Fasteignasölu Mosfellsbæjar.
Svanþór er fæddur í Reykjavík 20. september 1976. Foreldrar hans eru þau Halla Svanþórsdóttir starfsmaður í bókbandi og Einar Egilsson bókbindari. Svanþór á tvær systur, Svanhildi f. 1962 og Öglu Björk f. 1964.
Setti kettlinginn í húfuna
Svanþór flutti í Mosfellssveitina eins árs og bjó í Barrholtinu alla sína barnæsku í húsi sem foreldrar hans byggðu. „Sem barn var maður dekraður út í eitt því systur mínar voru 12 og 14 ára gamlar þegar ég fæddist svo það var vel hugsað um prinsinn á heimilinu,“ segir Svanni og skælbrosir.
„Þegar ég var pjakkur fór ég oft með pabba til að kaupa hey. Eitt skiptið gaf bóndinn á bænum mér kettling sem ég setti í húfuna mína. Pabbi komst ekki að því fyrr en við vorum komnir hálfa leiðina heim, ég fékk samt að eiga hann.“
Hentum verðmætum málverkum
„Það var frábært að alast hér upp, ég gekk í Varmárskóla og Gaggó Mos og mér fannst mjög gaman í skólanum. Ég eignaðist fullt af vinum sem eru ennþá vinir mínir í dag og ég var heppinn að vera með sömu bekkjarfélögunum í 1.−10. bekk. Kristín Sigsteinsdóttir var uppáhaldskennarinn minn en hún kenndi mér bróðurpartinn af þessum árum.
Margt var nú sjálfsagt í sveitinni á þessum tíma sem tíðkast ekki í dag. Til dæmis byrjuðum við krakkarnir í hverfinu strax eftir jól að safna í brennu fyrir gamlárskvöld sem var haldin á fótboltavellinum á milli Berg- og Barrholts. Þarna notaði fólkið í hverfinu tækifærið til að henda út úr bílskúrunum hjá sér. Eitt skiptið vorum við pabbi aðeins of duglegir að taka til og hentum talsverðu magni af málverkum sem væru mjög verðmæt í dag.“
Það var alltaf gaman á vaktinni
„Eftir útskrift fór ég í Iðnskólann í Reykjavík og fór svo að vinna í bókbandinu með pabba. Ég ákvað síðan að hefja nám í bókbandi en í miðju námi frétti ég að veitingastaðurinn Pizzabær í Mosó væri til sölu. Þetta hljómaði rosalega spennandi þar sem margir af mínum vinum voru að vinna þarna og líkaði vel. Ég ákvað að slá til, fann leið til þess að kaupa staðinn og rak hann í 11 ár eða til ársins 2007 en þá keypti Hrói höttur hann af mér.
Árin í pizzunum voru hrikalega skemmtileg og fjöldinn allur af Mosfellingum starfaði á staðnum. Þetta var í raun eins og félagsmiðstöð, viðskiptavinirnir að koma og fara og það var alltaf gaman á vaktinni, stutt í grín og gaman.“
Forréttindi að starfa í sínum heimabæ
„Eftir að ég hætti í pizzunum gerðist ég löggiltur bílasali og hóf störf hjá 100 bílum/Ísbandi hjá vini mínum Októ. Ég starfaði þar í eitt ár niður á Höfða eða þangað til að mér bauðst starf í Mosfellsbæ.
Ég hóf störf á Fasteignasölu Mosfellsbæjar 2008 og hef starfað þar í 11 ár. Fyrir þremur árum fór ég í nám til löggildingar fasteignasala. Ég verð nú að viðurkenna að ég var pínu stressaður að setjast aftur á skólabekk en allt gekk þetta eins og í sögu. Í dag stjórna ég daglegum rekstri fasteignasölunnar.“
Missir ekki af leik með Aftureldingu
Fyrir þremur árum kynntist Svanni Önnu Ragnheiði Jónsdóttur kennara frá Akureyri.
„Þetta eru búin að vera frábær þrjú ár hjá okkur Önnu og við höfum verið dugleg að ferðast erlendis. Þetta er engu að síður búið að vera pínu rask hjá okkur þar sem hún bjó fyrir norðan og við þurftum að ferðast mikið á milli en núna er Anna flutt til mín og er að fara kenna hér í Mosfellsbænum.“
Svanþór á einn son, Jason Daða f. 1999. „Við Jason minn höfum alla tíð verið mjög nánir og miklir vinir. Fótbolti er okkar aðaláhugamál og við eyðum miklum tíma saman í að horfa á hann. Við höfum farið saman á Old Trafford í Manchester og við fórum líka á EM í Frakklandi fyrir utan alla leikina sem við höfum farið á hér á landi.
Jason spilar knattspyrnu með Aftureldingu og ég missi ekki af leik með þeim.“
Hvíti Riddarinn og Fálkarnir
„Þann 14. ágúst 1998 komum við saman nokkrir vinir úr Mosó og stofnuðum knattspyrnuliðið Hvíta Riddarann. Ég er stoltur af því að vera í hópi stofnenda því liðið er enn til, 20 árum seinna.
Fyrir þremur árum stofnuðum við góðgerðafélag Hvíta Riddarans. Félagið hefur það að markmiði að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í bæjarfélaginu sem lent hafa í áföllum eða erfiðleikum. Allir geta rétt góðgerðafélaginu hjálparhönd í hvaða mynd sem er og þá er bara um að gera að hafa samband.
Ég hef gaman af því að vera í góðum félagsskap og er líka í góðra vina hópi sem heitir Fálkarnir. Við hittumst í líkamsrækt mjög reglulega og oft líka til þess að fá okkur bjór.
Ég er líka í þorrablótsnefnd Aftureldingar og finnst frábært að geta unnið góðgerðastarf fyrir félagið.“
Réði ekki við sig af kæti
Það fer ekki fram hjá neinum sem ræðir við Svanna að hann er stoltur Mosfellingur. „Já, það er best að búa í Mosó, það er bara þannig, hér búa yfir ellefu þúsund manns og bærinn er ört vaxandi. Ég held með Aftureldingu og öðrum íþróttafélögum í bænum, fyrirtækjunum og fólkinu.
Ég get sagt þér að þegar það kom í fréttum fyrir nokkuð mörgum árum að Mosfellingur hefði unnið stóran vinning í lottó þá varð ég svo glaður að ég réði ekki við mig,“ segir Svanni og brosir og bætir svo við: „Þótt ég hafi ekki haft hugmynd um hver hann er.“
Mosfellingurinn 13. júní 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs