Það bera sig allir vel
Vá, þvílíkt ár þetta 2020 sem við tókum svo vel á móti. Þetta átti að vera árið og það sannarlega varð það, bara svolítið öðruvísi en við ætluðum. En 2020 fer klárlega í minningabókina yfir furðulegasta árið. Árið sem allir tóku upp kínverska siði, hættu að heilsast með handabandi og grímur urðu töff.
Í upphafi ársins 2020 rifjaði ég upp hvað hafði áunnist á árinu 2019, persónuleg markmið um Landvætt, Laugavegshlaup og einhverja dönskukunnáttu höfðu náðst, en af vinnustaðnum mínum sagði ég:
„Á þinginu unnust ýmis stór og mikilvæg mál. Aukið frelsi, lægri álögur og að einfalda líf fólksins í landinu er og verður grunnstef okkar í þingmanna Sjálfstæðisflokksins.
Skattalækkanir bæði á fólk og fyrirtæki, traust efnahagsstjórn sem hefur skilað sögulega lágu vaxtastigi, aukinn kaupmáttur fólksins í landinu. Já, á Íslandi er svo sannarlega gott að búa enda hefur staðan hér aldrei verið betri.
Ég fer bjartsýn inn í nýtt ár með ný markmið og góða orku til að takast á við spennandi og krefjandi verkefni.“
Já, árið 2020 varð aðeins öðruvísi en ég gerði ráð fyrir, en ég er enn bjartsýn. Ísland er örugglega besti staðurinn til að búa á, sérstaklega í Covid. Frelsi einstaklingsins hefur ekki farið hátt á árinu, þar sem aldrei hafa meiri höft verið sett á daglegt líf fólks. En það hefur verið gert með öryggi og heilsu okkar allra að leiðarljósi. Frelsinu fylgir ábyrgð, þá ábyrgð sýnum við best með því að vera dugleg að sinna persónulegum smitvörnum og fara að fyrirmælum sóttvarnayfirvalda.
Mikið var nú gott að uppsveifla síðustu ára var nýtt til að greiða niður skuldir hins opinbera og tryggja þannig að ríkissjóður geti staðið undir því áfalli sem nú ríður yfir. Úrræði stjórnvalda miða að því að fjárfesta í öflugu samfélagi, samfélagi sem spyrnir við og vex hratt og örugglega út úr kófinu. Ísland er og verður land tækifæranna.
En þrátt fyrir kófið þá bera sig allir vel, Helgi Björns hefur sent okkur hlýja strauma frá Hlégarði og minnt okkur á að þótt úti séu stormur og él, þá lifir ljósið inni hjá þér og að lífið er gott sem betur fer. Mosfellingar hafa nýtt kófið til útiveru og hreyfingar, það sést vel á göngustígum og fellum bæjarins. Lýðheilsa skiptir miklu máli og vonandi er þessi mikli áhugi kominn til að vera.
Okkar yndislegi bæjarbragur hefur ekki fengið tækifæri til að blómstra eins og venjulega, en ég hlakka svo til þegar við förum öll að hittast aftur, get ekki beðið eftir þorrablótinu 2022, það verður eitthvað. En þetta fer nú allt að skána, viðspyrnan verður hraðari en marga grunar. Við þurfum að sýna seiglu, halda áfram að hreyfa okkur og huga að okkar nánasta. Þetta er allt að koma, en þangað til njótum við jólanna í jólakúlunni okkar.
Það koma vonandi jól með hækkandi sól.
Við étum á okkur gat af innlendum mat.
Og þrátt fyrir allt, misnotum sykur og salt.
Jólakveðja
Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks