Takk fyrir okkur!

Aldís Stefánsdóttir

„Þannig týnist tíminn” segir í lagi eftir meistara Bjartmar Guðlaugsson. Það er svo sannarlega tilfinningin þegar við fjölskyldan segjum skilið við Lágafellsskóla eftir tæplega 18 ára samfylgd.
Ætli við séum ekki svona frekar mikil vísitölufjölskylda á mosfellskan mælikvarða. Þrjú börn sem eru fædd á átta árum sem nú hafa lokið sinni grunnskólagöngu. En frá haustdögum ársins 2007 hefur Lágafellsskóli spilað stórt hlutverk í okkar lífi.
Hver einstaklingur gengur í grunnskóla að jafnaði í tíu ár á líklega einu mesta þroska– og mótunarskeiði sem við förum í gegnum í lífinu. Fjölskyldan fer að hluta til í gegnum þennan tíma með barninu og hver vetur á sína föstu punkta. Spennan á skólasetningunni, vetrarfrí, jólaföndrið, foreldraviðtöl, öskudagurinn, bekkjarkvöld, foreldrafundir og páskabingó og svo aftur spennan fyrir skólaslitum. Svo fátt eitt sé nefnt. En svo eru það öll samskiptin við kennara og annað starfsfólk, tilkynningarnar í Mentor, samskipti við aðra foreldra, tölvupóstar um lús og viðburði.
Að hafa þessa föstu punkta ekki lengur í sínu lífi eftir svona langan tíma verða svo sannarlega viðbrigði.
Mig langar að reyna að koma í orð þakklæti mínu til allra kennara, stjórnenda og starfsfólks bæði í leikskólanum og grunnskólanum sem við höfum verið í samskiptum við á öllum þessum árum. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og í þessu þorpi eru skólarnir okkar einn mesti áhrifavaldurinn. Það hefur verið mín reynsla bæði þegar leikskólagöngu og grunnskólagöngu lýkur að þá er mikið lagt í að kveðja hópinn og það hefur okkur þótt vænt um. Börnin eru kvödd með fallegum orðum, skjalfestum árangri og faðmlagi. Þannig er þeim ýtt mjúklega af stað út í heiminn og inn í næsta tímabil í sínu lífi.
Sterkar menntastofnanir og öflugt fagfólk er nauðsynlegt en það sem situr eftir í minningunum er þessi mannlegi þáttur og hvernig okkur leið, sérstaklega á þessum fallegu kveðjustundum. Þakklátir og stoltir foreldrar og kennarar hlið við hlið og barnið í öndvegi.
Takk fyrir okkur Lágafellsskóli – Takk fyrir samfylgdina kæra starfsfólk, kennarar og foreldrar. Takk fyrir vináttuna og allt ykkar framlag til að gera þennan tíma að því sem hann hefur verið.

Aldís Stefánsdóttir
foreldri fyrrverandi grunnskólanemenda í Mosfellsbæ