Sundabrautin
Um daginn var haldinn upplýsingafundur í framhaldsskólanum hér í Mosfellsbæ. Um það bil 50 manns mættu og hefði ég viljað sjá fleiri.
Nú hugsa örugglega margir að Sundabrautin skipti okkur hér ekki svo miklu máli því við munum væntanlega ekki nota hana. En svo einfalt er það ekki. Með tilkomu þessa mannvirkis mun umferðin léttast talsvert hér í gegnum bæinn okkar og kannski einnig í Ártúnsbrekkunni og lengra.
En fyrir okkur í Mosfellsbænum er mjög mikilvægt hvernig útfærslan muni verða. Við eigum nefnilega eitt stórkostlegasta náttúruverndar- og útivistarsvæði: Leiruvoginn. Það er nú þegar búið að skemma flest allar leirur á höfuðborgarsvæðinu og er ekki mikið eftir af óskemmdum leirum. En leirur eru mjög mikilvæg vistkerfi, þær binda mikið kolefni og skapa næringu fyrir óteljandi fugla. Leiruvogurinn er eitt albesta fuglaskoðunarsvæði þó víðar sé leitað. Bæði farfuglar og umferðafuglar koma við og næra sig sérlega á vorin og haustin. Íslendingar bera ábyrgð á mörgum fuglategundunum sem standa höllum fæti á heimsvísu en hafa viðkomu hér.
Leiruvogurinn og framhaldið Reykjavíkurmegin er mikið notað til útivistar og náttúruupplifunnar. Jafnvel er hægt að skoða seli mjög nálegt í Gorvíkinni syðst í Leiruvogi. Gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur nota strandlengjuna mikið, svo ekki sé talað um golfiðkendur.
Hvað mun gerast ef Sundabrautin yrði lögð á brú yfir Leiruvoginn? Ódýrasta áætlun gerir ráð fyrir landfyllingu sem skilur einungis smá op eftir þar sem sjórinn streymir út og inn. Nú vitum við og höfum reynslu af því hvernig svona framkvæmdir hafa haft gríðarlega neikvæð áhrif á lífríkið til dæmis í Kolgrafarfirðinum.
Fjórar ár renna í Leiruvoginn með tilheyrandi framburði. Þar sem sjórinn mun ekki ná að hreinsa setið út í gegnum svona þröng op mun Leiruvogurinn fyllast smátt og smátt.
Þessi Sundarbraut á brú mun verða hraðbraut og niðurinn af umferðinni mun skemma fyrir fólki sem ætlar að fá frið frá daglegu amstri þarna meðfram ströndinni.
Við eigum að setja áherslu á að fá Sundagöng en ekki brú þó þetta muni kosta meira. Þá þurfum við ekki að naga okkur í handarbökin seinna meir þegar óafturkræf náttúruspjöll hafa átt sér stað.
Úrsúla Jünemann




