Sundabraut fyrr en seinna

Nói Þrastarson

Við Mosfellingar þekkjum þetta öll. Umferðin í gegnum bæinn er orðin mun meiri en innviðir þola.
Á álagstíma sitjum við föst í röðum og fylgjumst með flutningabílum aka í gegnum bæinn án þess að eiga nokkurt erindi hingað. Þetta er ekki hvernig ástandið í Mosfellsbæ á að vera. Sundabrautin er lausnin sem getur breytt þessu.
Í dag er Mosfellsbær orðinn eins konar gegnumakstursleið fyrir þá sem eru á ferð milli Reykjavíkur, til útlanda, um Gullna hringinn, til Vesturlands og Vestfjarða. Afleiðingarnar eru tafir, aukin slysahætta og minna öryggi bæði fyrir akandi og gangandi vegfarendur. Sundabrautin myndi taka stóran hluta þessarar umferðar og leiða hana fram hjá bænum. Fyrir okkur sem búum hér þýðir það einfaldlega minni umferð og betra bæjarlíf.
Það er bæði eðlilegt og sanngjarnt að umferð sem á ekki erindi í Mosfellsbæ fari aðra leið. Við viljum að fólk komist leiðar sinnar en ekki á kostnað þeirra sem búa hér. Sundabrautin myndi bæta bæði öryggi og lífsgæði hér í Mosfellsbæ.
Sumir velta fyrir sér hvort Sundabrautin sé of dýr framkvæmd. En á hverjum degi tapast tími í umferðarteppum, eldsneyti fer til spillis og álag á vegakerfið eykst. Þegar þetta er allt lagt saman er Sundabrautin hagkvæm lausn til lengri tíma. Sundabrautin er fjárfesting í tíma okkar, öryggi og betra daglegu lífi.
Við finnum líka beint fyrir því hvað óáreiðanlegar samgöngur kosta. Stressið við að vera seinn í vinnu, missa af fundum eða sitja fastur í umferð þegar sækja þarf börn. Sundabrautin myndi stytta ferðatíma og gera samgöngur fyrirsjáanlegri.
Mikil umræða hefur verið um hvort Sundabrautin eigi að vera brú eða göng. Báðir valkostir hafa sína kosti, en brú hefur ákveðna yfirburði. Göng krefjast sérstakrar öryggisgæslu, loftræstikerfis til að halda mengun frá umferð í skefjum, sem er bæði kostnaðarsamt í byggingu og rekstri. Brú er einfaldari lausn, auðveldari í viðhaldi og skapar ekki sömu áskoranir varðandi loftgæði og öryggi. Mikilvægast er þó að þessi umræða verði ekki til þess að tefja verkefnið endalaust. Ákvörðun þarf að taka og framkvæmdir að hefjast.
Sundabrautin er ekki bara mál Mosfellsbæjar. Hún skiptir einnig miklu máli fyrir Vesturland og Vestfirði. Þeir sem flytja ferskan fisk og aðrar vörur vilja komast hratt leiðar sinnar, ekki sitja fastir í röð í Mosó. Sundabrautin er þjóðhagslegt hagsmunamál.
Niðurstaðan er skýr Sundabrautin er löngu tímabær. Hún mun létta umferð í Mosfellsbæ, bæta öryggi og gera daglegt líf okkar einfaldara. Nú er tíminn kominn til að byggja.

Nói Þrastarson, námsmaður og félagi í Miðflokknum