Stór meirihluti íbúa vill ekki þétta byggð á Blikastöðum
Hagsmunasamtök íbúa í Mosfellsbæ voru formlega stofnuð þann 9. janúar en tilgangur félagsins er að vera vettvangur fyrir íbúa Mosfellsbæjar til að gæta hagsmuna íbúa gagnvart stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og öðrum.
„Við viljum hvetja íbúa til að taka virkan þátt í umræðunni um öll þau mál er varða hagsmuni íbúa Mosfellsbæjar,“ segir Berglind Þrastardóttir formaður samtakanna en með henni í stjórn eru Einar Páll Kjærnested og Ingibjörg Sigríður Árnadóttir.
Stuttu eftir stofnun samtakanna var sett af stað íbúakönnun og stofnaður hópur á Facebook sem telur um 900 meðlimi.
„Könnuninni var dreift með póstum á Facebook og þar komu hverfasíður bæjarins sér vel. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum en tæplega 1.000 manns tóku þátt í könnuninni og ljóst er, út frá niðurstöðum hennar, að lítill samhljómur er á milli vilja bæjarbúa og bæjarfulltrúa um hvernig fólk vill sjá þróun byggðar í Mosfellsbæ.“
Brugðið eftir fund skipulagsnefndar
Hugmyndin að stofnun Hagsmunasamtaka íbúa í Mosfellsbæ varð til í framhaldi af því að íbúar í Bröttuhlíð og Hamratanga voru boðaðir á samráðsfund skipulagsnefndar Mosfellsbæjar í byrjun desember.
„Tilefnið var að kynna fyrir íbúum tillögu um að breyta þessari 47 íbúða götu, sem eingöngu er byggð einbýlishúsum og fjórbýlishúsum yfir í 157 íbúða borgarbyggð, þar sem m.a. yrðu byggðar sjö, þriggja og fjögurra hæða blokkir upp við Vesturlandsveginn í Bröttuhlíð.
Það er óhætt að segja að íbúum hafi brugðið enda tillagan í engu samræmi við gildandi aðalskipulag og ef af yrði myndi hún gjörbreyta ásýnd og byggð í götunni. Eftir fundinn hringdu nokkrir aðilar sig saman og voru allir sammála um að eitthvað yrði að gera til að berjast gegn þessum áformum og úr varð sterkur og drífandi hópur fólks. Fljótlega kom upp sú hugmynd að það væri skynsamlegt að stofna hagsmunasamtök þar sem hægt væri að ræða mál bæjarins á ópólitískum og málefnalegum vettvangi því flest höfum við skoðun á því hvernig við viljum sjá bæinn okkar þróast.“
Þörf á meiri umræðu um framtíðarsýn
Hagsmunasamtökin, í samvinnu við Húseigendafélagið, fengu Pál Jakob Líndal, dr. í umhverfissálfræði, til að vinna skoðanakönnun á meðal bæjarbúa og spyrja íbúa hvernig þeir sjái fyrir sér húsnæði, búsetu og þróun byggðar í sveitarfélaginu.
„Auðvitað hefði sveitarfélagið átt að vera búið að gera slíka könnun áður en ráðist var í meiriháttar umbreytingu á þróun byggðar, en því miður þá var það ekki gert.
Vonandi gefa bæjarfulltrúar okkar í Mosfellsbæ sér tíma til að rýna niðurstöðurnar og hugsanlega sjá þeir að það sé þörf á miklu meiri umræðu um framtíðarsýn Mosfellsbæjar á milli bæjarbúa og bæjarfulltrúa.“
960 manns tóku þátt í könnuninni
Vefkönnun var gerð á tímabilinu 17.-31. janúar 2024 og eru frumniðurstöður kynntar hér. 960 manns tóku þátt í könnuninni og var dreifing svara góð eftir aldursflokkum, kynjum og hverfum. Að sögn Páls Jakobs hafa þátttakendurnir almennt áhuga á skipulagsmálum og ættu niðurstöðurnar að vera hvatning fyrir skipulagsyfirvöld að efla samtal og samráð við íbúa.
– Flestir voru sammála um að þétting byggðar ætti ekki að fara fram með þeim hætti að opin svæði í þeirra eigin hverfi myndu víkja fyrir íbúðabyggð.
– 48% þátttakenda nefna Reykja-, Tanga-, Holta- og Höfðahverfi sem hverfi sem lýsi Mosfellsbæ best.
– Niðurstöður sýna að yfirgnæfandi fjöldi þátttakenda er andvígur því að ný byggð í Blikastaðalandi verði tvöfalt þéttari en núverandi byggð í Helgafellshverfi.