„Stoppum nú öll“

Hildur Dís Jónsdóttir Scheving

Hvernig má það vera að stórum parti af börnunum okkar líði illa í skólanum, nái ekki fótfestu?
Á Íslandi njótum við þeirra forréttinda að hér er skólaskylda.
Í fræðslulögum frá 1936 kemur fram að hið opinbera beri ábyrgð á að öll börn eigi möguleika á menntun við hæfi.
Börnin okkar verja því stórum hluta úr degi sínum innan veggja menntastofnana.
Stór hluti barna sem ekki tilheyra eða ná fótfestu í hinu almenna kerfi týnast, rúlla á milli nefnda, ráða, kerfa, stjórnenda, verkefnastjóra … útskrifast úr skyldubundnu námi án þess að ná sínum besta mögulega námsárangri því þau fengu ekki það umhverfi, þá aðstoð, þá hvatningu og utanumhald sem þau þurftu.
Þau féllu á milli.
Vandi þeirra er misstór en úrræðaleysið og hægagangur kerfanna náði ekki utan um þau. Oftar en ekki eru á bakvið þessa nemendur forráðamenn sem eru úrvinda, hafa barist fyrir barnið sitt, fyrir betri líðan og/eða bættum námsárangri í skólanum án úrbóta sem virka, sem festast í sessi og er viðhaldið.
Sum þeirra fá aðstoð, ná fótfestu – klára skólagönguna með sæmd.
Alltof stór hópur verður þó útundan.
Mosfellsbær hlaut nýverið viðurkenningu sem barnvænt samfélag. Í aðgerðaáætlun sem kynnt var í maí 2025 er hægt að sjá þau verkefni og markmið sem átti að vinna að og ná til þess að hljóta viðurkenninguna. Frábært verkefni og virkilega þarft.
Það vakti strax athygli mína að nánast öll markmiðin náðu til barna eldri en 12 ára. Vonandi er á því skýring, sem ég þó finn ekki.
Í dag erum við með viðkvæman hóp nemenda sem fellur undir þann aldursflokk. Þessi hópur hóf sitt skyldubundna nám í heimsfaraldri, hálfa grunnskólagöngu sína til þessa hefur ríkt hættuástand í samfélaginu. Með tilheyrandi rótleysi og starfsmannaveltu. Við erum með þeirra framtíð í höndunum. Þau eru „nýja týnda kynslóðin“.
Einkunnagjöf hefur breyst mikið síðasta áratug, með því minnkaði yfirsýn og eftirfylgni samræmdra mælinga á grunnfærni nemenda, vegna þessa eru takmörkuð gögn til, svo erfitt er að sjá raunverulega hver staðan er.
Háværar raddir frá forráðamönnum eru að heyrast, en þær fá ekki þá heyrn sem til þarf. Forráðamenn hafa áhyggjur af stöðu náms hjá börnum sínum, grunnfærni þeirra og hæfni virðist ekki vera sú sem hún að vera samkvæmt aðalnámskrá og eru nemendur eftir á með námsefni, ásamt því að niðurstöður mælinga sýna að lestrarfærni er í frjálsu falli niður á við, eins og flestum er orðið ljóst.
En hvað erum við að gera sem samfélag til að grípa þessi börn? Þessa nemendur sem hafa ekki hafa náð fótfestu frá upphafi skólagöngu sinnar?
Farsældarlög hafa tekið gildi yfir landið allt. Þau lög eiga að búa til umgjörð utan um barn sem er í vanda. Auðvelda á aðgengi að samþættri þjónustu og tekið fram að það sé án hindrana. Hinsvegar er upplifun forráðamanna barna í vanda í okkar samfélagi þvert á lögin. Forráðamenn sem lýsa algeru úrræðaleysi. Ekki sé hlustað í alltof mörgum tilfellum, ytri aðstæður séu sagðar hamlandi fyrir aðgerðir. Má hér nefna skólastofuna, rými til kennslu, starfsmannaveltu og kennaraskort, hæga afgreiðslu hjá fræðslu- og frístundasviði og fleira. Má nefna að mál sem fá flýtimeðferð taka eitt skólaár í vinnslu að lágmarki.
Hinsvegar er réttur til náms við hæfi lögbundinn ásamt farsældarlögunum sem eiga að vernda nemendur til að þeir fái nám við hæfi og öðlist grunnfærni og hæfni fyrir framtíðina.
Réttur nemenda er brotinn án þess að viðeigandi aðgerðir séu gerðar.
Við þurfum öll að stoppa, bakka aftur um áratug hið minnsta og skoða hvar við fórum út af sporinu. Við erum með dýrmæta framtíð í höndunum.
Börn sem koma til með að verða hér samfélagsþegnar í bænum okkar. Halda honum gangandi, halda uppi heiðri og sögu bæjarins. Þau verða að fá að vita að þau skipti máli í samfélaginu, að á þau sé hlustað, að þau séu að fá menntun við hæfi, að þau öðlist grunnfærni og hæfni til að búa þau sem best fyrir framtíðina. Eins og er þá er það ekki staðan í barnvæna bænum okkar, því miður. Þau líða of mörg fyrir starfsmannaveltu og kerfisflækjur, missa smátt og smátt tækifærin sín sem þau gætu verið að nýta ef þau hefðu náð fótfestu.
Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar- Hvet ég því ykkur öll að velta fyrir ykkur framtíð þessa hóps. Hvað getum við gert til að styðja við framtíð þeirra? Við erum að tala um framtíð bæjarins.

Hildur Dís Jónsdóttir Scheving
Uppeldis- og menntunarfræðingur