Stofna minningarsjóð um Pál Helgason
Stofnaður hefur verið minningarsjóður um Pál Helgason, tónlistarmann. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Páls Helgasonar og er stofnaður af börnum Páls og eftirlifandi eiginkonu. Stofnframlag sjóðsins kemur frá eiginkonu Páls, Bjarneyju Einarsdóttur, auk innkomu af styrktartónleikum sem haldnir voru í Langholtskirkju 23. október.
Páll var afkastamikill í tónlistarlífi landsins, þó mest í Mosfellsbæ og kom að stofnun fjölda kóra. Þar má nefna Álafosskórinn, Mosfellskórinn, Vorboða – kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Landsvirkjunarkórinn og Karlakór Kjalnesinga auk endurvakningu kóra eins og Karlakórsins Svana á Akranesi og Karlakórsins Stefnis í Mosfellsbæ.
Stofnaður á 75 ára afmæli Páls
Páls er minnst með hlýju og virðingu. Það er börnum og ekkju Páls mikils virði að sjóður helgaður minningu hans skuli stofnaður nú, á 75 ára afmæli Páls.
Stjórn sjóðsins skipa fjórir einstaklingar. Tveir stjórnarmanna eru börn Páls Helgasonar og fer annað þeirra með formennsku í sjóðnum, þriðji stjórnarmaður er ekkja Páls Helgasonar en formaður Karlakórs Kjalnesinga er fjórði.
Verkefni sem lúta að námi í kórstjórnun
Í reglum sjóðsins segir meðal annars: „Tilgangur og markmið sjóðsins er að styrkja verkefni sem lúta að námi í kórstjórnun. Einnig er sjóðnum heimilt að veita styrki til þeirra sem fjalla vilja um líf og starf Páls Helgasonar tónlistarmanns og stuðla að því að halda nafni hans á lofti. Þar getur verið um að ræða hvers konar nýja úrvinnslu eða nálgun á útsetningum, útgáfu, rannsóknir, kynningar og skrif eða önnur þau verkefni sem gera lífi hans og starfi skil.“
Í undirbúningi er að setja upp heimasíðu um Pál Helgason og verk og útsetningar hans. Búið er að stofna síðu á facebook þar sem hægt er að finna nánari upplýsingar þangað til.