Stofna hóp ábyrgra foreldra

Snædís og Daðey segja foreldrasamstöðu öflugustu forvörnina.

Mosfellingurinn Daðey Albertsdóttir er sálfræðingur sem vinnur mikið með börnum og unglingum.
Hún hefur fundið það í sínu starfi að snjallsímanotkun hjá börnum og unglingum er vaxandi vandamál á heimsvísu og mikið er fjallað um þann skaða sem börn og ungmenni verða fyrir með aukinni notkun samfélagsmiðla og snjallsíma.
Kvíði og önnur vandamál eru vaxandi heilsuvandamál meðal barna og hefur Daðey meðal annars verið að vinna að skjátímaviðmiðum og fleiru tengt þessum efnum í gegnum starf sitt sem sálfræðingur.

Öflug foreldrasamstaða
Daðey er þessa dagana í fæðingarorlofi með sitt annað barn en fyrir á hún son í 2. bekk í Lágafellsskóla. Hún ásamt Snædísi Jónsdóttur sem einnig er í fæðingarorlofi og á son í 3. bekk í sama skóla stofnuðu nýverið facebook-síðuna Áhugahópur ábyrgra foreldra í Mosfellsbæ – börn og samfélagsmiðlar.
„Já, við Snædís erum sem sagt saman í fæðingarorlofi, erum báðar bekkjarfulltrúar í Lágafellsskóla og höfum meðal annars verið að vinna saman að bekkjarsáttmála.
Miklar umræður skapast í svona vinnu og hugmyndir koma fram. Við erum að sjá fréttir utan úr heimi um að snjallsímanotkun og samfélagsmiðlar eru vaxandi vandamál. Við erum sannfærðar um að foreldrasamstaða sé öflugasta forvörnin.“

Ótti við að barnið þitt verði útundan
„Helsta vandamálið er að þótt foreldrar vilji ekki láta undan að gefa barninu sínu snjallsíma eða hleypa því á samfélagsmiðla, þá er það þessi pressa að ALLIR aðrir eigi síma og það er þessi ótti hjá foreldrum að barnið þeirra sé að verða útundan, þá erum við líklegri til að gefa eftir. Ef við sem foreldrar stöndum saman og erum með samræmd markmið þá er auðveldara standa með okkar ákvörðunum.“

Frábær viðbrögð við hópnum
Þær Daðey og Snædís segja að viðbrögðin við hópnum hafi verið frábær og nú eru rúmlega 600 meðlimir í honum. Hugmyndin var að búa til stuðningshóp fyrir foreldra í Mosfellsbæ sem átta sig á hættum samfélagsmiðla og vilja þar af leiðandi halda samfélagsmiðlum frá börnunum sínum sem lengst.
Markmið hópsins er að vera styðjandi við aðra foreldra og hvetja til ábyrgrar hegðunar varðandi snjalltæki. Þær stöllur segja að hópurinn sé vettvangur fyrir foreldra að skiptast á hugmyndum og styðja hvert annað í að vera ábyrgir foreldrar í Mosfellsbæ. Þær hvetja alla Mosfellinga til að ganga í hópinn og deila góðum ráðum og sýna samstöðu.