Stæðamál fyrir stór ökutæki í Mosfellsbæ
Einyrkjar í atvinnulífinu vinna langa vinnudaga. Þetta eru einstaklingar í margvíslegum störfum og þar má m.a. nefna pípara, rafvirkja, múrara, smiði o.s.frv. Þessar stéttir þurfa að komast á milli staða með góðu móti, hratt og örugglega.
Flestir þessara aka á bifreiðum og nýta tæki sem mögulegt er að tryggja að hægt sé að koma sér að heiman í vinnu og heim með góðu móti. Annað á við um rútubílstjóra, ökumenn stórra og meðalstórra flutningabifreiða og annarra slíkra tækja sem koma vörum frá A til B. Án þeirra berst ekki matur í verslanir, fólk og farangur eða ferðamenn á hótelin sem skila miklum tekjum í samfélagið.
Allir þessir einstaklingar, rétt eins og aðrir einyrkjar, fara oftar en ekki fyrstir allra að heiman og koma dauðþreyttir heim seint á kvöldin. Hér í Mosfellsbæ virðist vera meirihluti við völd í bæjarstjórn sem ekkert skynbragð hefur fyrir þörf á bílastæðum fyrir stærri ökutæki í nágrenni við heimili þessara manna eða í bænum yfirleitt. Hvers kyns skipulag er það þegar það gleymist að hér býr fólk af holdi og blóði sem starfar við að koma hagkerfinu í gang að morgni og tryggja að það gangi fram að kvöld?
Fyrir utan þéttingu byggðar og þrengingar á höfuðborgarsvæðinu er hér í Mosfellsbæ verið að útrýma stæðum fyrir flutningabifreiðar, sendibifreiðar, vörubifreiðar, rútubifreiðar og önnur tæki svo menn geti komist heim og að heiman. Það getur tæpast talist fjölskylduvænt samfélag sem gleymir þessu í skipulagi sínu eða beinlínis leggur sig fram við að útrýma bílastæðum stærri ökutækja, nú eða bílastæðum yfirleitt, svo fólk eigi erfiðara með að hafa ofan í sig og á, mæta í vinnu og síðan heim til að sinna fjölskyldu sinni og lesa fyrir börnin, nú eða barnabörnin.
Nú ber svo við að Mosfellsbær hefur skipulagt í burtu bílastæði beint á móti Reykjakoti hér í Mosfellsbæ og skilti, sem merkti stæði fyrir stærri ökutæki, fjarlægt. Við Skeiðholt hér í bæ var annað slíkt stæði fjarlægt á sínum tíma. Hvað verður lagt niður næst, stæðin við bensínstöðvarnar og þar byggðar blokkir eins og í henni Reykjavík.
Ég er fyrir löngu hættur að botna í þessum meirihluta í Mosfellsbæ og einnig öðrum meirihlutum sem hér hafa ríkt um árabil. Hef ég ekki um annan kost að velja en þann besta í næstu kosningum og það verður Miðflokkurinn. Það er flokkur gegn þrengingum og flokkur sem skilur atvinnulífið, mikilvægi þeirra starfa sem einyrkjar vinna við, venjulegt fólk.
Jón Þór Ólafsson
Ævintýri ehf. / Snorritravel



