Snemma byrjuð á ævistarfinu

Áslaug Kirstín Ásgeirsdóttir kennari og lesblinduráðgjafi hefur starfað við kennslu hátt í 30 ár.

Kennsla er starf sem krefst mikillar seiglu og sveigjanleika, þolgæðis og samstarfs við marga ólíka nemendur. Kennarinn þarf ósjaldan að beita ýmsum brögðum við að kveikja áhuga nemenda og getur því þurft að vera í senn, leiðbeinandi, fræðari, félagi og fyrirmynd.
Áslaug Kirstín Ásgeirsdóttir er reynslumikil kona sem hefur unnið við kennslu í öllum aldurshópum en hin síðari ár hefur hún unnið við sérkennslu ásamt því að hjálpa lesblindum einstaklingum.

Áslaug er fædd í Reykjavik 13. febrúar 1952. Foreldrar hennar eru þau Kirstín Lára Sigurbjörnsdóttir húsmóðir og handavinnukennari og Ásgeir Ó. Einarsson dýralæknir í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Systkini Áslaugar eru þau Guðrún Lára f. 1940, Einar Þorsteinn f. 1942, d. 2015, Sigrún Valgerður f. 1944 og Þórdís f. 1948.

Eilíflega þakklát fyrir fjölskylduna
„Ég er Vesturbæingur, uppalin í Ási við Sólvallagötu. Húsið var á tveimur hæðum með risi og kjallara, stór garður og skemmtilegt og líflegt heimilislíf enda vorum við mörg í heimili, foreldrarnir, afi og við systkinin.
Ég er yngst og er eilíflega þakklát fyrir fjölskyldu mína, áhrifin sem ég varð fyrir af samverunni og uppeldi með þeim öllum. Það var farið í kirkju á sunnudögum, mamma með matinn tilbúin, pabbi að undirbúa næsta útkall, afi að sinna ritstörfum inn á kontór og ég lá einhvers staðar með bók og las.“

Snemma byrjuð á ævistarfinu
„Ég á margar skemmtilegar minningar frá æsku. Til dæmis safnaði ég og Þórdís systir saman krökkum úr nágrenninu í skólaleik, m.a. Diddú og Ásdísi systur hennar, settum þau við borð og vorum kennarar, svo það má segja að ég hafi verið snemma byrjuð á ævistarfinu,“ segir Áslaug og brosir.
„Ég man líka eftir viðburðaríkum ferðum með pabba í læknisheimsóknir hingað og þangað, m.a. til bændanna sem voru með bú sín inn í miðri Reykjavík og Kópavogi.“

Hápunkturinn hin árlega brunaæfing
„Ég gekk í Vesturbæjarskóla, Melaskóla og Hagaskóla. Guðrún Lára systir mín kenndi mér að lesa 6 ára og ég hóf skólanám 7 ára. Allir skólarnir höfðu sinn sjarma og ég á bara góðar minningar frá skólaárunum. Í gamla Vesturbæjarskólanum var hápunkturinn hin árlega brunaæfing, að fá að bruna niður rennibrautina af annarri hæð.
Krakkar byrjuðu snemma að vinna í den, ég vann mörg sumur á Hótel Eddu á Eiðum en Guðrún Lára systir var hótelstjóri og síðar mamma. Ég starfaði líka sem ritari á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og sótti svo um flugfreyjuna. Fyrr og síðar var ég ritari, m.a hjá Ungmennafélagi Íslands, Krabbameinsfélaginu og á Kvennadeild Landspítalans.“

Mikil gerjun í gangi
„Leið mín lá síðan í Menntaskólann í Reykjavík og Kennaraháskóla Íslands. Árin frá Hagaskóla og í MR voru mikil mótunarár, tónlistin var í mikilli uppsveiflu og það komu út nýjar plötur vikulega sem heillaði okkur upp úr öllu valdi.
Við settum spurningarmerki við gamla tímann, vildum breytingar. Rauðsokkur og jafnrétti. Það var mikil gerjun í gangi því við upplifðum svo miklar breytingar í gamla samfélaginu. Eftir útskrift úr Kennaraháskólanum 1975 kenndi ég á Akureyri.“

Sofnuðum í sveit en vöknuðum í bæ
„Ég hitti Halldór Á. Bjarnason í Vestur­bæjarlauginni árið 1979, það var uppáhaldsstaðurinn minn og hann veiddi mig þar,“ segir Áslaug og skellihlær.
„Við eignuðumst þrjú börn, Odd Örn f. 1980, Kirstínu Láru, f. 1983 og Önnu Dúnu f. 1991, barnabörnin eru fjögur.
Við Halldór bjuggum fyrst við Norðlingabraut, og eftir að tvö elstu börnin fæddust fluttum við til Sviss og Hollands og þar var ég heimavinnandi með tvö börn, á hjóli, þetta voru yndisleg ár.
Við vorum alla tíð með hesta og tókum mið af þeim og börnunum þegar við fundum framtíðarheimilið í Leirutanga í Mosfellssveit árið 1987. Við fjölskyldan sofnuðum í sveit en vöknuðum í bæ, ég var hálf spæld yfir því en hér hefur verið gott að búa. Tvær systra minna búa hér líka, við vorum allar þrjár í Leirutanga þegar börnin okkar voru að alast upp, bróðir okkar bjó svo í Álafosskvosinni og sú elsta út á landi.
Við Halldór slitum samvistum 2005, hann lést 2011 en vinátta okkar hélst alla tíð. Eftir að við fluttum í Mosfellsbæ hef ég kennt í Gagnfræðaskólanum, Varmárskóla, Lágafellsskóla og nú í Helgafellsskóla. Ég hef unnið við kennslu í öllum aldurshópum, símenntunarkennslu hjá Mími, elstu deild í Reykjakoti og hin síðari ár í sérkennslu á ýmsum aldursstigum.“

Mér rann það alltaf til rifja
„Áhugamál mín eru ansi mörg, sum bíða í skúffu, önnur eru uppi á borðinu. Það helsta er náttúra Íslands, umhverfismál, íslensk tunga, lestrarvandi, hreyfing í formi útiveru, garðyrkja, hestamennska, myndlist og fegurðin í hinu smáa.
Ég bætti við mig listgreinakennslufræðum um aldamótin og svo kom vinkona mín, Hildur Einarsdóttir og maður hennar, Örn Kjærnested, því til leiðar, að Davis aðferðin yrði kennd á Íslandi en það var árið 2003.
Ég var heppin að vera með í þeim hópi því allt frá því ég hóf kennslu, fann ég svo til þess, að engin þjálfun kom með mér frá Kennaraháskóla Íslands, sem bjó mig undir að hjálpa lesblindum eða hæglæsum börnum. Mér rann það alltaf til rifja að vera bjargarlaus gagnvart lesblindum, því greip ég þetta tækifæri fegins hendi.“

Lesblinda er ekki einfalt viðfangsefni
Áslaug lærði Davis aðferðina með vinkonu sinni, Sigurborgu Svölu Guðmundsdóttur kennara. Þær voru heppnar að læra þetta hér á landi og fengu erlenda leiðbeinendur til sín í eitt ár. Þær opnuðum skrifstofu, ásamt öðrum, og störfuðu við þetta í rúmlega 10 ár.
„Lesblinda er ekki einfalt viðfangsefni, hún er ekki eins hjá neinum og lesblint fólk þarf að leggja mun meira á sig en aðrir. Aðaleinkenni lesblindra er að sjá í myndum og sá hæfileiki að verða skynvilltur og ringlast við það að rýna í þessi tákn á blaðinu. En á móti byggja lesblindir upp þrautseigju í námi sem aðrir hafa kannski ekki myndað. Lestur er mikilvægur, og grundvallaratriði er að greina lesblinduna snemma hjá börnum og koma til móts við þau.
Það er ekki langt síðan að litið var niður á lesblinda, en nú vitum við að lesblinda er náðargáfa og margt hæfileikafólk, á víðu sviði, í þeirra hópi.“

Á eftir að sjá á eftir starfinu mínu
„Ég hef unnið með stórum hópi frábærra einstaklinga á öllum aldri, allt frá 7 ára og sá elsti var 65 ára og er ég ævinlega mjög þakklát og auðmjúk gagnvart þessu fólki, því það, auk allra nemenda minna um ævina, eru mínir kennarar á móti. Þau hafa kennt mér gríðarlega margt. Ef þau lesa þetta, þakka ég þeim eilíflega fyrir.
Nú nálgast sjötugsafmælið mitt og ég á eftir að sjá á eftir starfinu mínu, enda enn í fullu fjöri og í gríðarlega frjóum og skemmtilegum hópi samstarfsfólks í Helgafellsskóla.
Ég sé sjálfa mig fyrir mér í ýmis konar ævintýrum eftir starfslok eins og kennslu og stuðningi við nemendur og verð sjálfsagt kennarinn sem auglýsir: „Tek að mér heimakennslu og prófarkalestur,“ er það ekki bara?“ segir Áslaug og hlær.