Smáskref
Ég er búinn að vera að vinna með litlu skrefin undanfarna mánuði. Fékk spark í rassinn um mitt síðasta ár þegar ég missti á einni nóttu styrk í hægri upphandlegg. Fékk mjög góð ráð frá sjúkraþjálfaranum mínum sem setti mig í daglegar æfingar. Hef síðan notað um þrjátíu mínútur fyrir vinnu á morgnana til að gera æfingarnar sem hann setti mér fyrir ásamt vel völdum liðleika- og styrktaræfingum sem ég veit að gera mér gott. Í dag er ég með tvö sett af æfingum sem ég geri til skiptist á morgnana. Ég byrja samt alltaf á sömu gólfæfingunum. Fyrst æfingum sem styrkja og liðka hálsinn, skipti yfir í barnarúll, rugg og nokkrar dýragönguæfingar áður en ég æfi mig mjúklega í að detta. Ég enda þessar gólfæfingar á nokkurs konar plankahring. Eftir gólfæfingar vinn ég í mismunandi (eftir dögum) styrk og liðleika. Síðasta morgunæfingin er alltaf að hanga á stöng, fyrir bakið og gripið.
Lykilatriði í þessum morgunæfingum er að ég hef í ör-skrefum gert þær erfiðari. Ör-skrefin eru svo lítil – kannski bæti ég bara við 1-2 sekúndu á viku í plankann eða hangsið – að líkaminn áttar sig ekki á því að hann er vinna meira en áður. En þetta safnast saman og þegar maður hefur ör-bætt sig í margar vikur og marga mánuði, þá eru framfarirnar orðnar vel merkjanlegar. Það sem var áskorun fyrir nokkrum mánuðum, er auðvelt í dag.
Þolinmæði og þrautseigja er það sem skiptir máli þegar kemur að því að byggja sig upp, sama hver grunnurinn er. Það kemur ekkert af sjálfu sér, en langtímaárangur næst ekki með því að reyna að komast hærra og lengra of hratt. Það er ávísun á meiðsli og yfirkeyrslu sem leiðir til þess að fólk gefst upp, hættir og gerir ekkert í langan tíma. Prófaðu litlu skrefin, þau gefa.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. mars 2025