Skýr sýn fyrir Mosfellsbæ

Bylgja Bára Bragadóttir

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ þann 31. janúar 2026.
Mosfellsbær stendur á tímamótum og fram undan eru stórar ákvarðanir sem varða atvinnuuppbyggingu, húsnæðismál og þjónustu við íbúa. Slík verkefni krefjast skýrrar sýnar, ábyrgra ákvarðana og vandaðrar stjórnsýslu sem byggir á trausti og festu.

Sterk samfélög byggjast á samvinnu
Rætur mínar liggja í minni samfélögum. Ég fæddist í Grundarfirði og ólst upp að hluta til á Ísafirði. Þar lærði ég snemma að samfélag er meira en hús og innviðir, það er fólkið sem stendur saman þegar á reynir. Í Grundarfirði kynntist ég mikilvægi samheldni og ábyrgðar, ekki síst þegar bæjarfélagið stóð við bakið á fjölskyldu minni eftir að faðir minn lést skyndilega í sjóslysi. Sú reynsla kenndi mér að samhugur og umhyggja skipta máli þegar á reynir.
Sterkt sveitarfélag er það sem sér alla íbúa, hlustar á ólíkar raddir og byggir ákvarðanir á samvinnu, trausti og gagnkvæmri virðingu. Samfélag þar sem enginn stendur einn og allir skipta máli.
Mosfellsbær er fjölskylduvænt og framsækið bæjarfélag þar sem lögð er rík áhersla á heilsu, umhverfi og velferð íbúa. Hér ríkir sterk samfélagskennd, öflugt félagslíf og tækifæri til þátttöku í fjölbreyttu íþrótta- og menningarstarfi. Bærinn er jafnframt „sveit í borg“ umkringdur náttúru og fjölbreyttum útivistarmöguleikum sem auka lífsgæði og styrkja tengsl fólks við umhverfið og hvert annað.

Reynslan skiptir máli
Ég hef starfað sem stjórnandi í hátt í 20 ár þar sem ábyrgð, fagmennska og mannleg samskipti hafa verið í forgrunni. Sú reynsla hefur kennt mér að góð forysta byggist á skýrum markmiðum, ábyrgum ákvörðunum og virku samtali við fólk. Í framboði mínu legg ég áherslu á að styðja sterka forystu, vinna af heilindum og vera málefnaleg og traust rödd skynsemi, samvinnu og framfara.
Öflugt félagslíf og sjálfboðastarf eru burðarstoðir sterks og lifandi samfélags. Ég hef verið virk í starfi Sjálfstæðisfélags Mosfellsbæjar og gegnt þar trúnaðarstörfum sem hafa kennt mér mikilvægi þess að hlusta og taka skýrar ákvarðanir. Jafnframt hef ég tekið þátt í sjálfboðastarfi, meðal annars í Þorrablótsnefnd Aftureldingar.
Árið 2011 keyptum við hjónin rekstur hér í bænum sem hafði staðið höllum fæti. Með markvissri vinnu tókst okkur að byggja hann upp á ný, bæta þjónustu og skapa störf í heimabyggð. Sú vegferð veitti mér dýrmæta sýn í mikilvægi góðra rekstrarskilyrða og skynsamlegra ákvarðana.
Frumkvæði og framkvæmdavilji hefur fylgt mér í gegnum lífið. Árið 2013 vann ég, ásamt vinkonu minni, frumkvöðlakeppni á vegum Íslandsbanka, Félags kvenna í atvinnulífinu og HR. Sú reynsla staðfesti að hugmyndir skipta máli en árangur næst þegar þær eru framkvæmdar af festu og ábyrgð.

Skýr framtíðarsýn
Næstu skref í uppbyggingu Mosfellsbæjar þurfa að byggjast á markvissri atvinnustefnu og fjölbreyttum húsnæðiskostum. Skapa þarf umhverfi sem laðar að fyrirtæki og gerir fólki kleift að vinna í heimabyggð. Jafnframt þarf að tryggja húsnæði sem mætir þörfum fólks á ólíkum skeiðum lífsins. Mosfellsbær á að vera staður þar sem fólk kýs að búa, ala upp börn sín, starfa og eldast. Til þess þarf skýra stefnu, raunhæfar lausnir og forystu sem nýtur trausts.
Ég vil leggja mitt af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar, stöðugleika og ábyrgra framfara í Mosfellsbæ.

Bylgja Bára Bragadóttir