Skrifað undir við leikmenn í handboltanum

Gestur Ólafur Ingvarsson, Tumi Steinn Rúnarsson og Sveinn Jose Rivera.

Gestur Ólafur Ingvarsson, Tumi Steinn Rúnarsson og Sveinn Jose Rivera. Mynd: Raggi Óla

Meistaraflokkur karla hjá Aftureldingu heldur áfram að styrkja liðið fyrir næsta tímabil í handboltanum.

„Það er mikið gleðiefni að geta tilkynnt stuðningsmönnum Aftureldingar og Mosfellingum um nýjustu fréttir í leikmannamálaum, segir Haukur Sörli Sigurvinsson formaður meistaraflokksráðs. „Tveir nýir leikmenn ganga til liðs við félagið í dag til viðbótar við Þorstein Gauta Hjálmarsson sem áður hefur verið tilkynnt um og Birki Benediktsson. Auk þess hafa tveir aðrir lykilmenn framlengt samning sinn við félagið en áður hafði Birkir Benediktsson framlengt sinn samning.
Tumi Steinn Rúnarsson hefur framlengt samning sinn til ársins 2021. 
Tumi sem er fæddur árið 2000 og gekk til liðs við Aftureldingu fyrir síðasta tímabil. Hann var lykilmaður í liðinu þrátt fyrir ungan aldur. Tumi, sem er einn allra efnilegasti leikmaður landsins, skoraði 75 mörk í 22 leikjum á nýliðnum vetri.
 
Sveinn Jose Rivera gengur til liðs við Aftureldingu og semur til ársins 2021.
Sveinn Jose er fæddur 1998 og er afar öflugur línumaður. Hann lék síðast með Gróttu í Olís-deildinni þar sem hann skoraði 70 mörk á tímabilinu.
 
Gestur Ólafur Ingvarsson hefur framlengt samning sinn við uppeldisfélag sitt Aftureldingu til ársins 2021. Gestur sem er 22 ára spilaði ekkert með liðinu á liðnu tímabili sökum krossbandaslita sem hann varð fyrir á undirbúningstímabilinu. Hann er kominn á fulla ferð í dag og mun styrkja lið Aftureldingar gríðarlega á komandi tímabili.
 
Karolis Stropus gengur til liðs við Aftureldingu og semur við félagið til ársins 2021. Karolis Stropus er ekki ókunnugur íslenskum handknattleik þar sem hann hefur leikið með liði Víkings (2015/2016) og Akureyrar (2016-2018) hér á landi. Karolis hefur leikið með Dragunas við góðan orðstír ásamt því að leika í landsliði Litháen þar sem hann á að baki um 50 landsleiki. Karolis mun án efa styrkja lið Aftureldingar á komandi vetri á báðum endumvallarins.