Skóli án aðgreiningar krefst nýrrar hugsunar

Elín María Jónsdóttir

Þegar börn falla ekki að kerfinu
Undanfarin ár hefur verið bent á að íslenska skólakerfið nái ekki að mæta þörfum allra barna. Þegar börn finna sig ekki í skólakerfinu er hætta á að sjálfsmynd þeirra veikist og tengsl við skólasamfélagið rofni, sem eykur líkur á vanda síðar.
Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla á hugtakið skóli án aðgreiningar rætur í hugmyndum um félagslegt réttlæti, þar sem öllum nemendum eru tryggð jöfn eða jafngild tækifæri til náms. Skóli án aðgreiningar er þó ekki ótvírætt hugtak, heldur mótast það af aðstæðum, viðhorfum og skipulagi hvers skólasamfélags.
Til að hugsjónin verði að veruleika þarf skólinn að búa yfir nægilegum stuðningi, mannafla og sérfræðiþekkingu þannig að kennarar geti mætt fjölbreyttum þörfum nemenda.

Börn eru ólík
Í hverri skólastofu mætast börn með ólíkar forsendur, áhuga og áskoranir. Það sem nýtist einum hentar ekki endilega öðrum. Skóli án aðgreiningar snýst ekki um að steypa alla í sama mót, heldur að mæta hverju barni þar sem það er statt. Kennarar þurfa að beita faglegu mati og sveigjanleika, hvort sem það felst í skýrari ramma, markvissari leiðsögn eða auknum áskorunum, þannig að allir fái tækifæri til að dafna.

Styrkleikar hverfa í kerfi sem ræður ekki við fjölbreytileikann
Þegar kerfið ræður ekki við fjölbreytileikann færist áherslan oft frá styrkleikum barnsins yfir á það sem ekki gengur. Hegðun eða frávik verða ráðandi og hæfileikar, áhugi og möguleikar falla í skuggann. Afleiðingin getur verið sú að nemandinn upplifi sig sem vandamál í stað virks þátttakanda. Slíkt getur grafið undan sjálfsmynd og trú á eigin getu.
Skóli sem vill vera án aðgreiningar þarf því að vera næmur fyrir styrkleikum hvers barns og skapa aðstæður þar sem þau fá að njóta sín. Þegar kerfið ræður ekki við fjölbreytileikann bitnar það ekki aðeins á þeim sem þurfa mestan stuðning, heldur einnig börnum sem eiga auðveldara með nám, þar sem kennslan nær síður að kveikja áhuga þeirra eða veita þeim viðeigandi áskoranir.

Skóli án aðgreiningar krefst raunverulegra úrræða
Hugmyndin má ekki vera þannig að hún hamli raunverulegum lausnum. Í umræðu um skóla án aðgreiningar virðist stundum ríkja ótti við að grípa til aðgreiningar, jafnvel þegar það er barni fyrir bestu. Að mæta þörfum nemenda getur kallað á tímabundna aðgreiningu, smærri hópa eða sértækan stuðning. Slík úrræði ganga ekki gegn hugmyndafræðinni heldur styrkja hana, svo lengi sem þau miða að velferð og framförum barnsins.
Raunveruleg innleiðing krefst þess að skólar hafi svigrúm til að þróa fjölbreyttar lausnir og að kennarar starfi við aðstæður sem gera þeim kleift að vaxa í starfi.

Sjálfstraust og seigla sem forvörn
Þegar börn fá stuðning og áskoranir við hæfi upplifa þau að tekið sé mark á þeim og þau tilheyri. Slíkt eflir sjálfstraust þeirra og byggir upp seiglu. Þau læra að takast á við áskoranir og mótlæti með stuðningi. Þannig er byggð upp ein öflugasta forvörnin í skólastarfi: ungmenni sem trúa á sjálf sig.

Hugmyndin er góð – en hvað svo?
Spurningin er ekki hvort skóli án aðgreiningar sé góð hugmynd, heldur hvort við sem berum ábyrgð á framkvæmd hennar séum tilbúin að láta hana virka í raun. Reynslan sýnir að kerfið nær ekki alltaf að styðja við fjölbreyttan nemendahóp.
Hugmyndin verður aðeins að veruleika ef hún er studd í daglegu starfi, ekki aðeins í orði.

Elín María Jónsdóttir
frambjóðandi í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ