Skólasamfélag barnanna okkar

Dagný Kristinsdóttir

Eitt það mikilvægasta í okkar lífi eru börnin okkar og þeirra velferð.
Við viljum öll að vegur þeirra verði sem greiðastur. Því miður er það nú ekki raunin hjá okkur flestum. Lífið færir okkur ýmis verkefni og áskoranir, í bland við góðu dagana. En þá skiptir máli hvernig við stígum inn í þau mál sem upp koma, hvernig við styðjum við barnið okkar og tölum máli þess, því við erum mikilvægustu bandamennirnir í lífi barnanna okkar.
Þegar eitthvað kemur upp á er eðlilegt að það hreyfi við okkur. Ég hef reynslu af því. Fyrir tæpum 10 árum síðan var ég erfiðasta foreldrið í skóla barnanna minna. Ástæðan var sú að eitt barnið mitt átti erfitt uppdráttar félagslega, það varð undir í félagslegum samskiptum og skólinn greip það heldur seint að mínu mati. Ég breyttist í manneskju sem ég vissi ekki að ég gæti orðið. Ég þorði ekki að segja suma hluti, sagði hluti sem mig langaði að segja og sagði hluti sem ég hefði betur látið ósagða.

En hvað lærði ég?
Ég lærði að það er allt í lagi að vera ósáttur og gera athugasemdir. En maður þarf að gera það á réttum stöðum. Samfélagsmiðlar og opinber umræða er ekki staðurinn. Allt sem við setjum á samfélagsmiðla verður þar um ókomin ár, áminning þess hvernig okkur leið á tilteknum tíma.
Ef við veljum þá leið að ræða persónuleg mál barna okkar á opinberum vettvangi þarf að vanda sig, því barnið kemur til með að lesa orð okkar þegar það fær aldur og þroska til. Við þurfum líka að vanda okkur hvernig við tölum um annarra manna börn. Við vitum ekki hver staða þeirra er. Ég hef lært að það er ástæða fyrir allri hegðun. Ég hef líka lært það að það vaknar enginn að morgni og ákveður að vera vondur við alla í dag. Aftur, fyrir allri hegðun er ástæða. Barnið getur verið svefnlaust, svangt, illt í maganum eða sálinni eða hvoru tveggja.
Ég lærði líka að ég sem foreldri er mikilvægur hlekkur í keðjunni. Ég þarf að anda djúpt, hlusta, meðtaka og vera tilbúin í samtalið. Ég stend ávallt með barninu mínu en þarf líka að vanda mig við að standa með þeirri lausn sem er verið að vinna með hverju sinni. Ég lærði líka að það er allt í lagi að fá hjálp, til dæmis með því að fá þriðja aðila að borðinu.
Einn mikilvægasti lærdómurinn af okkar máli var sá að allir starfsmenn skólans vildu allt fyrir mitt barn og okkur foreldrana gera. Við sáum það ekki endilega í auga stormsins en vitum af því í dag. Þið eigið ævarandi þakkir skilið. Þið vitið hver þið eruð.

Verum partur af lausninni
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og þar erum við foreldrarnir mikilvægustu bandamennirnir. Við verðum að vera hluti af samtalinu. Við þurfum að leggja okkar af mörkum til að vinna með mál barna okkar. Við þurfum að vera tilbúin að hlusta á mismunandi sjónarmið með opnum huga.
Við megum líka vera meðvituð um það að við erum ekki ráðin sem skemmtikraftar í foreldrahlutverkinu. Stundum er það okkar hlutverk að segja nei og veita leiðbeiningar, sem misvel er tekið í.

Dagný Kristinsdóttir
móðir og bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar