Skólarnir skipta öllu
Skólar í hverjum bæ eru mikilvægir í lífi barna og fjölskyldna þeirra. Skólarnir eru hjartað í hverju hverfi og hverjum bæ. Þetta skrifa ég ekki bara vegna þess að það eru kosningar í vor heldur af reynslu minni sem kennari og foreldri.
Það er fátt sem skiptir fjölskyldur meira máli en að allt gangi vel í skólanum. Að allir fari glaðir af stað á morgnana og komi glaðir heim. Ef upp kemur vandi þá spilar kennarinn stórt hlutverk. Það þekki ég líka af eigin raun sem foreldri og þá er mikilvægt að vera í góðum tengslum við skólann. Þannig leysast málin.
Erum að uppskera – Aðstaðan bætt
Á undanförnum árum hefur orðið fordæmalaus fjölgun í bænum og nemendum fjölgað í skólunum. Í fjárhagsáætlun 2018 er gert ráð fyrir að þjónusta í fræðslu- og frístundamálum verði efld samhliða stækkun bæjarfélagsins.
Árin í kringum hrun voru sveitarfélögum erfið en hér í Mosfellsbæ var vel haldið utan um reksturinn og erum við loks að uppskera. Mikilvægt var að fara strax í að bæta aðstöðu í skólum bæjarins bæði í leik- grunn- og listaskóla. Nefna má aukið fjármagn sem fer í að bæta tölvukost og gera fleiri umbætur sem kallað hefur verið eftir m.a. í Vegvísi sem unnin var af rýnihópi kennaranna.
Vegvísir þessi er umbótaáætlun sveitarfélagsins sem er byggð á gögnum úr rýnihópum allra þriggja grunnskólanna. Segja má að vinnan við Vegvísi hafi skilað Mosfellsbæ góðri greiningu á stöðu grunnskólanna þegar kemur að vinnuumhverfi kennara. Nánast allir kennarar í sveitarfélaginu áttu rödd í rýnivinnunni og komu sínum úrbótahugmyndum á framfæri. Þeim hugmyndum var síðan forgangsraðað af stýrihópnum og þær birtast í umbótaáætlun skóla og sveitarfélagsins.
Þjónusta við yngri börn
Einnig má nefna að almennt gjald í leikskóla lækkar um 5% nú um áramótum og fjölgar plássum á ungbarnadeildum fyrir 12 – 18 mánaða börn um 20 pláss. Gjaldskrár leikskóla miðast nú við 13 mánaða aldur í stað 18 mánaða sem þýðir að leikskólagjald er greitt fyrir barnið frá 13 mánaða aldri þótt barnið sé hjá dagforeldri eða í leikskóla í Reykjavík sem bærinn hefur gert samning við. Allt skiptir þetta máli fyrir fjölskyldur í bænum.
Í Mosfellsbæ er öflugt fræðslu- og frístundastarf sem gerir bæjarfélagið fjölskylduvænt og eftirsóknarvert til búsetu. Fjárhagsáætlun fræðslu- og frístundasviðs er umfangsmikil og innan hennar eru meðal annars allir leik- og grunnskólar bæjarins, Listaskóli, frístundasel, félagsmiðstöð, ungmennahús, dagforeldrar, vinnuskóli, íþrótta- og tómstundaskóli, íþróttamiðstöðvar, skólaþjónusta og skólaakstur.
Nýr Helgafellsskóli
Að lokum má nefna byggingu nýs leik– og grunnskóla sem er nú byrjað að reisa í Helgafellshverfinu. Undirbúningur skólans hófst í febrúar 2014 þegar ákveðið var hvernig uppbyggingu skólamannvirkja í Mosfellsbæ skyldi háttað á næstu árum. Þar er áætlað að daglegt starf eigi að miðlast í gegnum leik og sköpun.
Með tilkomu Helgafellsskóla mun umhverfi skólanna verða enn betra og rýmra ætti að vera um hvern nemanda. Það eru bjartir tímar fram undan í Mosfellsbæ og fókusinn algjörlega á að bæta þjónustu við viðkvæmustu hópana. Fræðslumálin verða ávallt í forgangi í Mosfellsbæ.
Með ósk um gleðilegt ár.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
Formaður fræðslunefndar