Sjálfboðaliðar

Ég hef verið sjálfboðaliði síðan ég var gutti. Fannst það eðlilegur hluti af tilverunni að hjálpa til í kringum fótboltann hjá Þrótti þar sem ég tók mín fyrstu sjálfboðaliðaskref. Sjálfboðaliðastarf er risastór hluti af íslensku samfélagi. Viðbragðsaðilar Almannavarna eru að stórum hluta sjálfboðaliðar. Björgunarsveitirnir eru þar í aðalhlutverki en hlutverk sjálfboðaliða Rauða krossins er sömuleiðis mjög mikilvægt. Íþróttir á Íslandi byggja á sjálfboðaliðum. Það eru engin Manchester City eða Nottingham Forest hér. Það á enginn íþróttalið á Íslandi. Við eigum þau saman, samfélagið. Sjálfboðaliðar mynda stjórnir, taka ákvarðanir og fá aðra með sér í að halda mót og fjárafla. Halda starfinu gangandi. Gera börnunum okkar mögulegt að æfa hjá sínu félagi.

Sumir sjálfboðaliðar eru áberandi í samfélaginu. Drifkraftar sem brenna fyrir félaginu sínu, björgunarsveitinni sinni, íþróttinni sinni. Þessir drifkraftar eru mjög mikilvægir. Stundum of mikilvægir. Við treystum svo mikið á frumkvæði þeirra og getu þeirra til að leiða verkefni að við förum að treysta of mikið á þau. Hanna græjar þetta, engar áhyggjur. Þessir drifkraftar stoppa aldrei, en við hin þurfum að passa upp á þau, taka af þeim álagið og dreifa ábyrgðinni.

Aðrir sjálfboðaliðar eru minna sýnilegir en jafn mikilvægir. Sjálfboðaliðar Rauða krossins sem opna fjöldahjálparstöðvar og sinna sálrænum stuðningi og áfallahjálp eru minna sýnilegir en sjálfboðaliðar í leitar- og björgunarstörfum úti á vettvangi, en jafn mikilvægir. Einar Þór, vinur minn, sem verður 60 ára á þriðjudaginn er jafn mikilvægur Hönnu sinni, þótt hann sé ekki eins sýnilegur í samfélaginu. Einar er bóngóður, úrræðagóður, traustur vinur og félagi. Alltaf tilbúinn til að hjálpa til og finna lausnir á verkefnum og áskorunum. Ég hvet alla Einarsvini til að koma með okkur í Þrautahlaup Einars á þriðjudaginn til að heiðra manninn bak við tjöldin og sýna í verki að allt sem hann hefur gert fyrir Mosó skiptir okkur miklu máli!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. september 2024