Seljadalur
Einn af fegurstu og sérstæðustu dölum innan marka Mosfellsbæjar er Seljadalur.
Þessi skjólsæli og vel gróni dalur er við vesturmörk Mosfellsheiðar, sunnan og austan við Grímannsfell sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar. Fremur fátítt er að þar sé fólk á ferð utan hestafólk sem ríður elstu leiðina í átt til Þingvalla.
Þetta var leið þriggja konunga en Kristján IX fór þarna um 1874, Friðrik VIII 1907 og Kristján X 1921.
Jón á Reykjum segir svo í mjög fróðlegri lýsingu sinni af Seljadal sem birtist í Mosfellspóstinum 19.6.1981:
„Seljadalurinn er allur eða að mestu í eigu hreppsins, en er upphaflega úr jörðunum Þormóðsdal og Miðdal. Náttúrufegurð er mikil í dalnum enda skýlt úr öllum áttum nema ef til vill að norðaustan.“
Heimild: https://timarit.is/files/66988132
Örnefnið Seljadalur vísar til að í honum hafi verið tvö sel, kannski fleiri. Í dag er einungis eitt þekkt, Nessel vestarlega í dalnum undir Grímannsfelli. Mun það fremur vera kennt við Gufunes en Nes á Seltjarnarnesi.
Má enn í dag sjá vel varðveittar rústirnar og hvernig húsaskipan var, mjög hefðbundin. Í næsta nágrenni rennur lækur en aðgengi að góðu vatni var ein af mikilvægustu forsendum seljabúskaparins enda hreinlæti mjög mikilvægt.
En hvar var hitt selið?
Viðeyjarklaustur var auðugasta klaustur á Íslandi á miðöldum. Til þess var stofnað af helstu höfðingjum landsins, sjálfum Snorra Sturlusyni og Þorvaldi Gissurarsyni, föður Gissurar jarls. Klaustrið var vígt 1226 af Magnúsi biskup í Skálholti, bróður Þorvaldar. Lagði hann til klaustursins biskupstíund (osttolla) milli Botnsár í Hvalfirði og Hafnarfjarðar. Auk þess átti það reka víða um Reykjanes. Klaustrið var rænt tvívegis; 1539 og 1550.
Magnús Guðmundarson sem var prestur á Þingvelli gaf Viðeyjarklaustri selför í Þormóðsdal hinum efri segir í máldaga (eignaskrá) Viðeyjarklausturs frá 1234, heimild: Fornbréfasafn Íslands, fyrsta bindi bls. 507. Nafnið bendir til að örnefnið Seljadalur kemur síðar við sögu eftir að selin hafa verið tvö. Seljadalur er mjög grösugur og skjólsæll og Seljalandsbrúnirnar veita búsmala gott aðhald.
Landbúnaðarsamfélagið fyrrum byggðist á því að unnt væri að hafa seljabúskap yfir hásumarið þannig að afla mætti nægra heyja af heimatúnum og koma búfénu frá. Þannig hefur klausturfólk átt gott samstarf við Gufunesinga við að koma búsmalanum stystu leið upp með Úlfarsá og upp í Seljadal. Þessi leið hefur þann ótvíræða kost að vera fremur stutt og greiðfær enda engar erfiðar torfærur á leiðinni.
Með siðaskiptunum verða gríðarlegar breytingar á búskaparháttum landsmanna. Danski kóngurinn leggur undir sig allar eignir klaustra, kirkna og biskupsstóla og er á einu ári orðinn eigandi 20% allra jarða á Íslandi.
Fyrrum voru jarðirnar leigðar með þeim skilmálum að leiguliðar afhentu klaustrinu tiltekinn hluta af afurðum jarðarinnar, oft 5-10%. Eftir siðaskipti voru þær leigðar með öðrum skilmálum sem einkum var falið í vinnuframlagi í þágu Bessastaðavaldsins. Margir leiguliðar urðu að sjá um að senda vinnumenn sína í verið til að róa á kóngsbátunum og til veiða í Elliðaánum, en fyrirferðarmesta kvöðin hefur verið að vinna viðarkol í Þingvallaskógi og afhenda tiltekið magn á Bessastaði á tilteknum tíma. Þetta hefur væntanlega verið ein þyngsta kvöðin enda verða viðarkol ekki unnin nema um hásumarið þegar mest er um að vera í heyönnum.
Allt þetta breytti öllum búskaparháttum meira og minna. Nautgriparækt dregst verulega saman, enda þörfin fyrir framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum minni, en sauðfjárbúskapur eykst að sama skapi. Unnt var að sleppa sauðfé í haga eftir sauðburð og ekki þurfti eins mikla fyrirhöfn við að mjólka kýr og sinna tímafrekum bústörfum.
Mér þykir mjög líklegt að Viðeyjarsel hafi verið þar sem nú er Kambsrétt. Hún var skilarétt Mosfellinga og nærsveitarmanna væntanlega fljótlega upp úr siðaskiptum og fram yfir miðja 19. öld. Þá var Árnakróksrétt austan Selvatns tekin í notkun, mjög stór og stæðileg.
Umhverfi hennar er votlendi og þótti auk þess vera nokkuð úr leið einkum fyrir þá Mosfellinga sem í Mosfellsdal bjuggu. Varð það til þess að Hafravatnsrétt var tekin í notkun 1901 og er líklega einna frægust rétta í Mosfellsbæ.
Sögufélag Kjalarnesþings fyrirhugar gönguferð um Seljadal laugardaginn 7. september næstkomandi ef veður leyfir.
Guðjón Jensson