Samnýting og samstarf

Ég fór með samstarfsfólki mínu í fræðsluferð til Finnlands í síðustu viku. Það er margt sem við getum lært af Finnunum, ekki síst samnýting á aðstöðu. Hluti hópsins fór í dagsferð til Tampere þar sem við fengum kynningu á hinum glæsilega Tammelan leikvangi sem var vígður á síðasta ári. Framkvæmdastjóri vallarins, Toni Hevonkorpi, tók á móti okkur og sýndi okkur mannvirkið. Nýtingin á vellinum sjálfum er þannig að meistaraflokkar félagsins æfa á honum fyrir hádegi, eftir hádegi fá skólar og eldri borgarar að nýta hann áður en yngri flokkar Ilves, heimaliðsins, mæta á æfingar. Hluti af stúkubyggingunni er leigður út sem skrifstofurými á daginn og neðsti hluti stúkubyggingarinnar er vel skipulagt geymslusvæði.

En Tammelan völlurinn er ekki bara fótboltavöllur. Í mannvirkinu er einnig stór matvöruverslun, þrír veitingastaðir og bílakjallari. Stórt fjölbýlishús er einnig hluti af mannvirkinu sem fellur vel inn í umhverfið í borginni. Fótbolti er í aðalhlutverki, en viðburðir á borð við tónleika er mikilvægur hluti af rekstrinum. Tampere er markvisst að markaðssetja sig sem íþrótta – og viðburðaborg og fjölnýtanleg mannvirki eru þar í aðalhlutverki. Nokia Arena, að grunni til íshokkíhöll, er veglegasta mannvirkið af þessu tagi í Tampere, en þar mun einmitt einn riðill í úrslitakeppni Evrópumótsins í körfubolta fara fram í ágúst. Næst á dagskrá er að byggja íþrótta- og viðburðamannvirki fyrir finnskan hafnabolta – en sú íþrótt er hátt skrifuð hjá frændum okkar Finnum.

Finnarnir eru líka til fyrirmyndar þegar kemur að því að hvetja til heilbrigðrar útiveru. Meðfram strandlengjunni í Helsinki eru göngu-, hlaupa- og hjólastígar, garðar, padelvellir, apastigar, æfingatæki, saunur, bryggjur, bátar og kaffihús sem laða heimamenn og gesti til sín. Ég sá fyrir mér Hafravatnið þegar ég labbaði meðfram ströndinni í Helsinki. Við gætum búið til útivistarparadís í kringum vatnið – grunnurinn er til staðar – það sem þarf til er vilji til samstarfs og samnýtingar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. apríl 2025